Fjölmargar breytingar hafa orðið á skipulagi Rauða krossins. Búið er að sameina nokkrar deildir víðs vegar um landið.

Fjárhagsstaða Rauða Krossins hefur verið erfið vegna COVID-19 og er gríðarlegt álag á starfsmönnum og sjálfboðaliðum Rauða krossins.

Svæðisfulltrúum sagt upp

Í maí var orðið ljóst að faraldurinn myndi hafa mikil áhrif á tekjustofna félagsins. Var þá rætt um möguleika til hagræðingar bæði hjá landsskrifstofu og félaginu öllu.

Breytingar hafa í kjölfarið verið gerðar á skipulagi Rauða krossins. Svæðisfulltrúum Rauða krossins, þ.e. launuðum fulltrúm deilda víða um landið, hefur verið sagt upp. Sérstakur neyðarvarnarfulltrúi sem sér um samhæfingu neyðarvarna alls staðar á landinu hefur verið ráðin inn.

Eitt stærsta verkefni Rauða krossins vegna COVID-19 er umsjá sóttvarnarhúsins á Rauðarárstíg.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Reykjavíkurdeild og Mosfellsbæjardeild voru sameinaðar undir nafninu Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu, Grindavíkurdeild sameinast Suðurnesjadeild og til stendur að sameina Seyðisfjarðardeild og Múlasýsludeild. Á Austurlandi sameinast einnig fjórar deildir Norðfjarðar, Eskifjarðar, Breiðdals og Reyðarfjarðar. Þetta staðfestir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauði Krossins.

„Þetta hafa verið mjög margar deildir og stundum óþarflega margar að kraftanir nýtast betur þetta eru stærri og öflugri deildir. Það er spennandi að sjá sameiningar fjögurra deilda á Austurlandi,“ segir Brynhildur.

Björg Kjartansdóttir, sviðsstjóri fjáröflunar- og kynningarmála hjá Rauða krossinum,sagði í samtali við DV í júlí að ástæðan fyrir uppsögnum væri meðal annars vegna áherslu- og skipulagsbreytinga.

Landsskrifstofa Rauða krossins er á höfuðborgarsvæðinu og formenn deilda og sjálfboðaliðar eru flestir búsettir á sínum landshlutum.

Að sögn Brynhildar ákveður hver og ein deild það fyrir sig um sameiningu. Tillaga er borin upp á aðalfundi deildarinnar af stjórn viðkomandi deildar, sem aðeins félagsmenn þeirrar deildar hafa atkvæðisrétt á.

Rauði krossinn hefur umsjón með farsóttarhúsum og rekur Hjálparsímann 1717 sem einnig tekur við yfirfalli frá símanúmeri Læknavaktarinnar 1700.
Fréttablaðið/Valli

Óánægja á Vestfjörðum

Á fréttavef BB kemur fram að þremur skrifstofum Rauða krossins var lokað; á Ísafirði, Norðfirði og í Hveragerði.

Bæjarstjórnir Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkur hafa lýst yfir óánægju vegna ákvörðunar Rauða kross Íslands um að loka starfsstöð sinni á svæðinu. Segja þau Rauða krossinn hafa gegnt lykilhlutverki í tengslum við snjóflóðið á Flateyri. Sendu stjórnirnar frá sér bókanir vegna málsins.

„Bæjarráð Ísafjarðarbæjar harmar þá ákvörðun RKÍ að loka starfsstöð sinni á svæðinu og mótmælir því harðlega. Mikilvægi starfstöðvar á svæðinu hefur margsannað gildi sitt í þeim áföllum sem svæðið hefur orðið fyrir í gegnum tíðina í tengslum við náttúruhamfarir. RKÍ hefur því gegnt lykilhlutverki í þeim áföllum sem svæðið hefur orðið fyrir og hefur Ísafjarðarbær styrkt samtökin fjárhagslega, síðast í tengslum við snjóflóðið á Flateyri síðastliðinn vetur. Svæðið fór einnig illa út úr COVID 19 faraldrinum og þar skipti miklu máli aðkoma starfsmanna RKÍ að aðgerðum viðbragðsaðila,“ segir í fundargerð frá bæjarráði Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar harmar ákvörðun RKÍ um að loka skrifstofunni.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Þessi ákvörðun um að loka starfsstöð RKÍ á svæðinu er ekki í neinu samræmi við nýsamþykkta stefnu samtakanna þar sem eitt af yfirlýstum markmiðum er að færa starf RKÍ enn nær heimabyggð. Þar að auki er ákvörðunin ógagnsæ og órökstudd og ekkert samráð eða samtal átti sér stað við aðila í heimabyggð í aðdraganda uppsagnanna,“ segir í yfirlýsingu frá bæjarráði Bolungarvíkur.

Bæjarstjórnir sendu áskorun á yfirstjórn Rauða krossins í sumar að draga þessi áform til baka.