Jón Magnús Jóhannes­son, deildar­læknir á Land­spítalanum, segist telja nú­verandi stefnu yfir­valda vegna bólu­setningu 12-16 ára barna við CO­VID-19 ein­fald­lega ranga. Jón deilir skoðun sinni á Face­book.

Land­læknir til­kynnti í miðri viku að beðið verði frekari rann­sókna á börnum á aldrinum 12-16 ára áður en þeim verði boðin bólu­setning með sam­þykki for­eldra. Jón, sem meðal annars hefur svarað spurningum um CO­VID-19 á Vísinda­vefnum, segist telja þessa hug­mynd galna.

„Þessi af­staða er hrein­lega ó­boð­leg. Nú hefur verið sam­þykkt bólu­setning 12-16 ára barna við CO­VID-19 (í sam­ræmi við sam­þykki FDA/EMA) svo lengi sem óskað er eftir því. Þetta var skýrt í reglu­gerð frá Em­bætti land­læknis. Hins vegar virðist stefnan vera að bíða þar til skóli byrjar. Það ætti að vera aug­ljóst af hverju það er galin hug­mynd,“ skrifar Jón á Face­book.

„Einnig orkar það tví­mælis að bíða eftir meiri sam­fé­lags­dreifingu áður en bólu­sett er. Við vitum að klár á­vinningur er af bólu­setningu 12-16 ára barna við CO­VID-19 og öryggi er mjög gott. Hér er ekki verið að láta börn njóta vafans - hér er verið að tak­marka að­gengi barna að mikil­vægri heil­brigðis­þjónustu.“

Mesti óttinn við hjarta­vöðva­bólgu

Jón var til við­tals í út­varps­þættinum Harma­gedd­on í gær og sagðist byggja af­stöðu sína á gögnum heil­brigðis­yfir­valda í Banda­ríkjunum og Evrópu. Bendir Jón á að CO­VID-19 geti verið hættu­legt börnum og vísaði til þess að 500 börn hefðu látist af völdum veirunnar í Banda­ríkjunum.

Hann segir að nú beinist á­hyggjur vísinda­manna af bólu­setningum barna gegn CO­VID-19 að svo­kallaðri hjarta­vöðva­bólgu sem greinst hafi meðal ein­stak­linga eftir bólu­setningu með Pfizer og Moderna. „Sem hefur verið að sjást hjá börnum, sér­stak­lega hjá strákum og sér­stak­lega fólki undir þrí­tugu,“ segir Jón.

„Það hefur verið stað­fest að MRNA bólu­efnin, Pfizer og Moderna geta valdið þessum fylgi­kvilla hjá öllum en aðal­lega yngri ein­stak­lingum og þetta virðist vera sér­stak­lega í kringum tví­tugt og meira hjá körlum,“ segir hann.

„Það sem er já­kvætt við þetta, að þó þetta hljómi mjög ógn­vekjandi, þá eru 95 prósent til­fella, að minnsta kosti í Ísrael þar sem þetta var mikið rann­sakað því þau gáfu svo rosa­lega mörgum Pfizer, að 95% til­fella eru væg og fólk jafnar sig af ein­kennum á nokkrum dögum,“ segir Jón

Bólgan sé alla­jafna mjög lítil og valdi ekki neinum lang­varandi skaða. „Og það er metið sem svo, að ef milljón manns myndu fá tvo skammta af Pfizer eða Moderna, milljón börn 12-16 ára myndum við sjá í kringum 12,6 til­felli af þessari hjarta­vöðva­bólgu og 95% af þeim væru væg.“

Hann segir að ef milljón strákar 12-16 ára væru bólu­settir yrði komið í veg fyrir tvö dauðs­föll og 216 spítala­inn­lagnir vegna CO­VID-19. „Og það myndu í mesta lagi vera 70 til­felli af þessari hjarta­vöðva­bólgu, 95 prósent væg og engin dauðs­föll. Því enginn hefur dáið úr hjarta­vöðva­bólgu eftir bólu­setningu. Það er mjög mikil­vægt. Við værum að koma í veg fyrir tvö dauðs­föll á meðal 12-16 ára stráka.“

Nærri 90 prósent landsmanna 16 ára og eldri hafa fengið að minnsta kosti eina sprautu gegn COVID-19.
Fréttablaðið/Valli

Bíða með bólu­setningu barna sem ó­lík­lega verða veik

Þór­ólfur Guðna­son er ekki við í dag en Hjör­dís Guð­munds­dóttir, upp­lýsinga­full­trúi vísaði meðal annars á Lyfja­stofnun og á grein á vef Land­læknis um bólu­setningar barna þegar Frétta­blaðið hugðist bera málið undir sótt­varnar­lækni. Spurningarnar sem til stóð að leggja fyrir Þór­ólf hafa verið sendar Lyfja­stofnun en svar hefur ekki borist.

Í greininni sem Hjör­dís vísar á á vef Land­læknis kemur fram að ein­göngu megi nota bólu­efni Pfizer fyrir ein­stak­linga undir 18 ára aldri. Þar kemur fram að við rann­sóknir á notkun bólu­efnisins fyrir aldurs­hópinn 12-15 ára sem gerðar voru fyrir út­gáfu markaðs­leyfis hafi rúm­lega 2000 börn verið bólu­sett. Það sé nógu stór hópur til að finna út að börn svara bólu­efninu og nóg til að finna út að tíðni al­gengra auka­verkana er svipuð og fyrir full­orðna.

Fram kemur að það sé hins­vegar ekki nóg til að meta hvort ein­hverjar sjald­gæfar auka­verkanir séu al­gengari hjá þeim sem eru 18 ára og eldri. „Hver ár­gangur á aldrinum 12–15 ára, sem yrði bólu­settur hér, telur fleiri ein­stak­linga en voru bólu­settir í rann­sóknunum sem lágu að baki út­víkkun markaðs­leyfisins til þessa aldurs­hóps.

Það er því við­eig­andi að bólu­setja fyrst þau börn sem eru í mestri hættu á að fá al­var­leg ein­kenni vegna CO­VID-19 s.s. börn með lungna­sjúk­dóma, en bíða ör­lítið með bólu­setningu barna sem eru ó­lík­leg til að verða al­var­lega veik af CO­VID-19 og tryggja að slík bólu­setning fari fram við að­stæður sem henta barninu og eftir í­hugun for­ráða­manna á kostum og ó­kostum bólu­efnisins.“