Framkvæmdir á landi Þrastaskógar hafa skapað deilur á milli Ungmennafélags Íslands og eiganda Þrastalundar. UMFÍ segir að framkvæmdir á tjaldsvæðinu séu gerðar án þeirra leyfis og að málið sé nú á borði opinberra aðila. Rekstraraðili tjaldsvæðisins telur að ekki sé um leyfisskylda starfsemi að ræða.
Athygli var vakin á málinu á íbúasíðu Selfyssinga á Facebook þar sem fjölmargir hafa tjáð sig um framkvæmdirnar.

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, kynningarfulltrúi UMFÍ, segir að Sverrir Einar Eiríksson, eigandi Þrastalundar og rekstraraðili tjaldsvæðisins í Þrastaskógi, sé aðeins með tjaldsvæðið á leigu af þeim og allar framkvæmdir verði að fara í gegnum stjórn UMFÍ. Í ágúst tilkynnti Sverrir að hann hyggðist opna nýtt „glamping“- svæði í Þrastalundi.
„Glamping“-útilega, sem má þýða á íslensku sem „glæsi-legu,“ á rætur sínar að rekja til hefða meðal ensku yfirstéttarinnar, sem hafa fengið nútímalegri búning í aldanna rás. Um er að ræða lúxusgistingu í tjaldi sem er stærra en hefðbundið útilegutjald, og gjarnan eru aukin þægindi og aðbúnaður í tjaldinu, sem færir gistinguna upp á næsta stig.
UMFÍ ekki samþykkt framkvæmdirnar
„Sverrir er ekki með nein leyfi fyrir þessum framkvæmdum. Hann óskaði eftir samþykki okkar fyrir þeim en við höfum ekki veitt honum neitt leyfi. Hann tók aðeins við rekstri tjaldsvæðisins og er með samþykki fyrir því að byggja lág hús við hlið veitingastaðarins Þrastalundar. Ekki eru samþykki fyrir neinum öðrum framkvæmdum,“ segir Jón.
Jón segir að fjöldi fólks hafi sett sig í samband við hann eftir að umræða um framkvæmdirnar hófst á íbúarsíðu Selfoss,
„Einn þeirra benti á að engin rotþró hafi verið í sumar frá trukkunum sem eru á tjaldsvæðinu. Saur og annað hafi því farið beint út í jarðveginn. Mér var bent á að Heilbrigðiseftirliti Suðurlands hafi skoðað málið og gagnrýnt aðstæður,“ segir Jón og bætir við að byggingarfulltrúi, sýslumaður og brunaeftirlit hafi heldur ekki gefið út leyfi fyrir neinu nema tjaldsvæði og gámum.
Jón segir að UMFÍ hafi mótmælt framkvæmdunum og tjáð honum að þetta sé ekki í samræmi við þeirra vilja.
„Þetta er ekki gert með okkar samþykki og málið er nú á borði opinbera aðila. Við hörmum að málið sé komið á þetta stig, því þetta snertir okkur,“ segir Jón.
Telja að ekki sé um leyfisskylda starfsemi að ræða
Sverrir Einar Eiríksson, eigandi Þrastarlundar og rekstraraðili tjaldsvæðisins í Þrastaskógi segir að hann og hans lögmenn telji að ekki sé um leyfisskylda starfsemi að ræða.
„Um er að ræða starfsemi sem hæfir svæðinu, tjöld og húsbíla á tjaldsvæði. Við höfum átt í samskiptum við byggingarfulltrúa um hvort starfsemin kunni að vera tilkynningarskyld, en áhöld eru um það. Komi í ljós að eitthvað bjáti á í þeim efnum verður úr því bætt,“ segir Sverrir.