Fram­kvæmdir á landi Þrasta­skógar hafa skapað deilur á milli Ung­menna­fé­lags Ís­lands og eig­anda Þrasta­lundar. UMFÍ segir að fram­kvæmdir á tjald­svæðinu séu gerðar án þeirra leyfis og að málið sé nú á borði opin­berra aðila. Rekstraraðili tjaldsvæðisins telur að ekki sé um leyfisskylda starfsemi að ræða.

At­hygli var vakin á málinu á í­búa­síðu Sel­fyssinga á Facebook þar sem fjöl­margir hafa tjáð sig um fram­kvæmdirnar.

Íbúar á Selfoss hafa tjáð sig um framkvæmdirnar á Facebook.
Skjáskot/Facebook

Jón Aðal­steinn Bergsveinsson, kynningar­full­trúi UMFÍ, segir að Sverrir Einar Ei­ríks­son, eig­andi Þrastalundar og rekstraraðili tjaldsvæðisins í Þrastaskógi, sé aðeins með tjald­svæðið á leigu af þeim og allar fram­kvæmdir verði að fara í gegnum stjórn UMFÍ. Í ágúst tilkynnti Sverrir að hann hyggðist opna nýtt „glamping“- svæði í Þrastalundi.

„Glamping“-útilega, sem má þýða á íslensku sem „glæsi-legu,“ á rætur sínar að rekja til hefða meðal ensku yfirstéttarinnar, sem hafa fengið nútímalegri búning í aldanna rás. Um er að ræða lúxusgistingu í tjaldi sem er stærra en hefðbundið útilegu­tjald, og gjarnan eru aukin þægindi og aðbúnaður í tjaldinu, sem færir gistinguna upp á næsta stig.

UMFÍ ekki samþykkt framkvæmdirnar

„Sverrir er ekki með nein leyfi fyrir þessum fram­kvæmdum. Hann óskaði eftir sam­þykki okkar fyrir þeim en við höfum ekki veitt honum neitt leyfi. Hann tók að­eins við rekstri tjald­svæðisins og er með sam­þykki fyrir því að byggja lág hús við hlið veitinga­staðarins Þrastalundar. Ekki eru sam­þykki fyrir neinum öðrum fram­kvæmdum,“ segir Jón.

Jón segir að fjöldi fólks hafi sett sig í sam­band við hann eftir að um­ræða um fram­kvæmdirnar hófst á í­búar­síðu Sel­foss,

„Einn þeirra benti á að engin rot­þró hafi verið í sumar frá trukkunum sem eru á tjald­svæðinu. Saur og annað hafi því farið beint út í jarð­veginn. Mér var bent á að Heil­brigðis­eftir­liti Suður­lands hafi skoðað málið og gagn­rýnt að­stæður,“ segir Jón og bætir við að byggingar­full­trúi, sýslu­maður og bruna­eftir­lit hafi heldur ekki gefið út leyfi fyrir neinu nema tjald­svæði og gámum.

Jón segir að UMFÍ hafi mót­mælt fram­kvæmdunum og tjáð honum að þetta sé ekki í sam­ræmi við þeirra vilja.

„Þetta er ekki gert með okkar sam­þykki og málið er nú á borði opin­bera aðila. Við hörmum að málið sé komið á þetta stig, því þetta snertir okkur,“ segir Jón.

Telja að ekki sé um leyfisskylda starfsemi að ræða

Sverrir Einar Eiríksson, eigandi Þrastarlundar og rekstraraðili tjaldsvæðisins í Þrastaskógi segir að hann og hans lögmenn telji að ekki sé um leyfisskylda starfsemi að ræða.

„Um er að ræða starf­semi sem hæfir svæðinu, tjöld og hús­bíla á tjald­svæði. Við höfum átt í sam­skiptum við byggingar­full­trúa um hvort starf­semin kunni að vera til­kynningar­skyld, en á­höld eru um það. Komi í ljós að eitt­hvað bjáti á í þeim efnum verður úr því bætt,“ segir Sverrir.