Leyni­þjónustu Suður-Kóreu, NIS, og leyni­þjónustu­nefnd þingsins í Suður Kóreu ber ekki saman um hvort tölvu­þrjótar frá Norður-Kóreu hafi stolið gögnum um bólu­efni Pfizer og BioN­Tech og þróun þess en mis­vísandi upp­lýsingar hafa komið fram síðast­liðna daga um málið.

Suður-kóreski lög­gjafinn Ha Tae-keung sagði við blaða­menn í gær að NIS hafi kynnt þing­mönnum málið í gær en að sögn Ha beindist á­rásin meðal annars að Pfizer. NIS greindi aftur á móti frá því skömmu síðar að upp­lýsingar sem Ha gaf hafi ekki verið réttar.

Ósammála um hvort Pfizer hafi verið nefnt

Að því er kemur fram í yfir­lýsingu NIS voru ein­hverjar til­raunir gerðar til að brjótast inn í tölvu­kerfi bólu­efna­fram­leið­enda en hvergi hafi nein nöfn, þar á meðal Pfizer, komið fram í kynningunni.

Ha svaraði þeim aftur á móti á Face­book þar sem hann full­yrti að nafn Pfizer hafi komið fram í skjölum sem þing­menn fengu en stofnunin tók skjölin til baka eftir kynninguna. Máli sínu til stuðnings vísaði Ha til þess að hann hafi skrifað hjá sér nafn Pfizer.

Ó­ljóst er hve­nær meint árás Norður-Kóreu átti að hafa átt sér stað eða hverju var stolið, og vilja yfir­völd í Norður-Kóreu ekki tjá sig um málið. Þá gaf Pfizer það út í gær að þau kæmu ekki til með að tjá sig um málið.

Áður sökuð um stuld

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Norður-Kórea hefur verið sökuð um að stela upp­lýsingum í tengslum við CO­VID-19 en Micros­oft greindi frá því í nóvember að tölvu­á­rásir hafi verið gerðar á nokkra bólu­efna­fram­leið­endur en hægt var að stöðva þær á­rásir.

Þá var greint frá því skömmu síðar að grunur væri um það að Norður-Kórea hafi fram­kvæmt tölvu­á­rás gegn breska lyfja­fram­leiðandanum AstraZene­ca.

Yfir­völd í Norður-Kóreu til­kynntu í fyrra að þau kæmu til með að þróa sitt eigið bólu­efni gegn CO­VID-19 en ó­ljóst var hvort landið hefði næga þekkingu til þess.