Bæjarstjórn Árborgar deilir nú um hvernig staðið var að endurbótum á Ráðhúsinu. Hófust þær árið 2019 og féllu ekki innan þáverandi fjárhagsáætlunar og hafa síðan farið langt fram úr kostnaðar­áætlun.

Sagt er að upphaflega hafi verið samþykkt að veita 5 milljónir króna til vissra verka, en að framkvæmdin hafi undið verulega upp á sig og endi í um 100 milljónum.

Minnihluti Sjálfstæðismanna vill að gerð verði óháð úttekt á embættisfærslum vegna framkvæmdanna. Skoðað verði hvort farið hafi verið að ákvæðum sveitarstjórnarlaga um valdmörk, hvort útboðsskylda hafi verið virt og hvernig staðið var að vali arkitektastofunnar Plan 21. Gunnar Egilsson, oddviti þeirra, segist vilja vita hvar í stjórnsýslunni þetta hafi verið ákveðið.

Í svari við fyrirspurn minnihlutans í byrjun febrúar kom fram að kostnaðurinn var rúmar 65 milljónir árið 2019. „Þetta er komið í 85 núna og á eftir að fara yfir 100, því það á eftir að taka alla efri hæðina og fleira,“ segir Gunnar. „Þetta er sama óráðsía og í borgarstjórn Reykjavíkur.“

Kom einnig fram að samstarf við Plan 21 hefði komist á þegar sviðsstjórar funduðu með hönnuðum.

Í grein Gísla Halldórssonar sveitarstjóra frá því í gær segist hann hins vegar hafa tekið ákvörðunina og kynnt fyrir sviðsstjórum. Í sömu grein segir Gísli mistök hafa verið gerð er dróst að setja viðauka við fjárhagsáætlunina en breytingarnar hafi verið mjög aðkallandi. Þá biðst hann afsökunar á því að ekki hafi verið tekið tillit til hönnunarkostnaðar arkitekta, sem var um 20 milljónum króna hærri en búist var við.

Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs, segir að verkið hafi ekki verið boðið út, þar sem það hafi verið talið innan útboðsreglna. „Það var ekki ákveðið hversu langt ætti að fara í þessum áfanga.“

Meirihluti Framsóknarflokks, Miðflokks, Samfylkingar og Áfram Árborg, hefur gert breytingar­tillögu um óháða úttekt á eldri framkvæmdum, er Sjálfstæðisflokkur var við völd, svo sem viðbyggingu skóla og gatnagerð. Eggert kveður það til að nýta samlegðaráhrif. Ekkert sé að því að taka út Ráðhúsið.

Þá gerir meirihlutinn einnig athugasemd við aðkomu Ástu Stefánsdóttur, varabæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem jafnframt er sveitarstjóri í Bláskógabyggð.

„Þegar við fengum tillöguna senda komumst við að því að Ásta var höfundur skjalsins,“ segir Eggert. „Okkur finnst á gráu svæði að sveitarstjóri í nágrannasveitarfélagi sé að blanda sér með þessum hætti í stjórnmálin í Árborg. Persónulega og siðferðislega finnst mér að hún hefði átt að segja af sér sem fulltrúi hér þegar hún tók að sér sveitarstjórastöðuna. En hún hefur rétt á þessu og á lögheimili hér.“ Bendir hann á að Árborg sé í alls kyns samstarfi við Bláskógabyggð.

Gunnar segir meirihlutann fara í manninn en ekki málefnið og hafnar því að aðkoma Ástu sé óeðlileg. „Hún er varabæjarfulltrúi og við vinnum greinarnar saman. Þetta er argasti dónaskapur. Manneskjan býr hérna, borgar sín gjöld og var kosin,“ segir hann.