Í gær var sam­þykkt í Ala­bama nýtt frum­varp sem bannar þungar­rof í öllum til­vikum, nema þegar þarf að bjarga lífi konunnar. Það þýðir að sé konum nauðgað eða ungar stúlkur kyn­ferðis­lega mis­notaðar og verði þær ó­léttar geta þær ekki leitast eftir því að eyða fóstrinu. Sam­kvæmt frum­varpinu eiga læknar sem fram­kvæma slíkar að­gerðir yfir höfði sér allt að 99 ára fangelsis­dóm.

Konur í Banda­ríkjunum hafa ekki tekið þessum breytingum þegjandi og hafa þúsundir þeirra liðinn sólar­hring stigið fram á sam­fé­lags­miðlum undir myllu­merkinu #youknowme eða á ís­lensku #þúþekkir­mig og deilt sínum sögum um þungunar­rof.

Fór sjálf í þungunarrof 15 ára

Leik­konan Busy Phillips, sem ef­laust margir muna eftir úr þáttunum Daw­son‘s Cre­ek, var sú sem hóf á­takið en hún hafði vikuna áður deilt sinni eigin reynslu af þungunnar­rofi í við­tals­þætti sínum Busy Tonight sem er sýndur alla þriðju­daga. Hægt er að horfa á það hér að neðan.

„Ég veit að margir hafa sterkar skoðanir á fóstur­eyðingum en leyfið mér að segja þetta: Konur og læknarnir þeirra eru þau sem eru í bestu mögu­legri stöðu til að taka upp­lýstar á­kvarðanir um hvað er best fyrir þær og enginn annar. Enginn,“ segir Phillips í við­talinu.

Að því loknu segir hún að það eina sem slík lög geri, sem banna þungunar­rof, er að setja fleiri konur í hættu, því að þótt að að­gerðirnar séu bannaðar muni þær samt sem áður leitast eftir því að fara í þær.

„Ég fór í fóstur­eyðingu þegar ég var fimm­tán ára og ég er að segja ykkur þetta því ég er raun­veru­lega hrædd um konur og stúlkur um allt land,“ segir Phillips.

Þúsundir hafa deilt sögum

Þúsundir kvenna hafa fylgt for­dæmi Phillips og deilt sögum sínum. Hluta þeirra má sjá hér að neðan en á Twitter er hægt að finna fleiri undir áður­nefndu myllu­merki #youknowme.