,,Mér finnst það vægast sagt undarlegt að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri skrifi um landnámið á víðum grundvelli án þess að minnast einu orði á skrif Bergsveins Birgissonar,“ segir Illugi Jökulsson, en árið 2007 kom út grein í tímaritinu Sagan öll sem fjallaði um rostungsveiðar á Íslandi.

Illugi segir að deiluefni Bergsveins og Ásgeirs snúist um annað og meira en bara rostungakenninguna sem sé bara einn þáttur í margslunginni og frábærri bók Bergsveins um Svarta víkinginn.

,,Þessi kenning um rostungaveiði á Íslandi á landnámsöld er búin að vera lengi á kreiki á meðal fræðimanna. Helgi Guðmundsson skrifaði um þetta fyrir aldamótin 2000, þó að hann hafi -minnir mig-fjallað meira um hvalveiðar en rostungsveiðar, „ segir Illugi.

Svo skrifuðu Helgi Þorláksson og Orri Vésteinsson um rostunga í bók sem kom út í tilefni af opnun sýningar í Austurstræti um landnám Ingólfa.

„Mér fannst svolítið skrýtið hvað þessar kenningar vöktu litla athygli meðal almennings þótt þær væru á vitorði meðal fræðimanna.“

Vann upp úr kenningum Helga og Orra

,,Það eina sem ég lagði til málanna var að vinna grein upp úr skrifum Helga og Orra, og vitnaði skilmerkilega til þeirra í greininni í Sögunni allri árið 2007,“ segir Illugi.

,,Ég hef ekki komið því í verk að lesa bók Ásgeirs svo ég get ekki dæmt um vinnubrögð hans,.“