Sóknar­presturinn Davíð Þór Jóns­son tjáir sig um um­mæli Katrínar Jakobs­dóttur sem hún lét falla í há­degis­fréttum Bylgjunnar í dag. Davíð Þór grípur til þess að vitna í Jesú í Face­book færslu.

Katrín sagði á Bylgjunni að yfir­lýsing Davíðs Þórs frá því í gær dæmi sig sjálf. Davíð Þór sagði að sér­stakur staður sé í hel­víti fyrir fólk sem selji sálu sína fyrir völd og veg­tyllur, vegna fyrir­hugaðra brott­vísana.

Um­mælin hafa vakið mikla at­hygli, Agnes Sigurðar­dóttir, biskup landsins meðal annars veitt Davíð Þór á­minningu vegna þeirra.

„Mér finnst nú gagn­rýni biskups Ís­lands og sóknar­prests Þjóð­kirkjunnar eðlis­ólík,“ segir Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra á Bylgjunni. „Og ég verð að segja það að mér finnst um­mæli Davíðs Þórs dæma sig al­gjör­lega sjálf.“

Nokkuð ljóst er að Davíð Þór lætur sér fátt um finnast um um­mæli Katrínar, að því er lesa má úr nýjustu Face­book færslu hans.

„Jesús: Vei yður, fræði­menn og farísear, hræsnarar! Högg­ormar og nöðru­kyn, hvernig fáið þér um­flúið hel­vítis­dóm? Þess vegna sendi ég til yðar spá­menn, spekinga og fræði­menn. Suma þeirra munuð þér líf­láta og kross­festa, aðra húð­strýkja í sam­kundum yðar og of­sækja borg úr borg. Þannig kemur yfir yður allt sak­laust blóð sem út­hellt hefur verið á jörðinni,“ skrifar Davíð Þór og bætir við að síðustu:

„Farísei: Þessi orð dæma sig sjálf.“