Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, sakar í leiðara blaðsins í dag Ísgerði Gunnarsdóttur, einn af umsjónarmönnum Krakkafrétta á RÚV, um ósannindi og skaðlegan áróður í frétt um Berlínarmúrinn. Fer hann fram á að Ísgerður biðjist afsökunar. Í samtali við Fréttablaðið segir hún að sér finnist ekki ástæða til að biðjast afsökunar, en að hún geti tekið gagnrýninni: „Það er enginn fullkominn.“

Segir Davíð að ef Ríkisútvarpið geti ekki sagt „krökkum óþægilegar fréttir“ öðruvísi en með því að segja þeim ósatt, ætti það að sleppa því að segja þeim fréttir. Ísgerður neitar því að hafa sagt nokkuð ósatt, þó að fréttin hefði getað verið betur orðuð.

Berlínarmúrinn útskýrður sem skipulagsákvörðun

Davíð segir að í fréttinni hafi Berlínarmúrinn verið útskýrður sem „umferðarlegt stjórntæki“ og að bygging hans hafi ekki verið annað en skipulagsákvörðun. Bendir hann á að margir þeirra sem reynt hafi að komast á milli borgarhluta hafi verið skotnir eða fangelsaðir. Ísgerður ítrekar að ekkert í fréttinni hafi verið ósatt og að þau sem vinni að þáttunum geri það af heilindum. Fréttirnar sem sé fjallað um þurfi að vera skiljanlegar fyrir krakka og þá þurfi að orða þær einfalt og við það geti fréttaefnið misst vægi. Þess vegna sé það vandasamt að skrifa fréttir fyrir krakka.

Fréttaflutningurinn ósannur

Tilefni skrifa Davíðs er grein sem Ísgerður birti íMorgunblaðinu eftir að Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms- og menntamálaráðherra hafði gert athugasemd við frétt Krakkafrétta. Bar grein hennar yfirskriftina „Vandasamt að skrifa einfaldar Krakkafréttir,“ og segir hún þar frá því að erfitt sé að skrifa um flókin málefni svo að krakkar skilji. Eins og áður segir ýjaði ritstjórinn að því að fréttaflutningurinn væri ósannur, og skaðlegur börnum.

„Ég eiginlega efast um að hann hafi horft á fréttirnar okkar ef hann heldur að við séum ekki að segja rétt frá málum. Við höfum fjallað um mikið af fréttum sem fólki finnst óþægilegar. Mál sem eru erfið og flókin, sem er erfitt því við viljum ekki skilja krakka eftir með byrðar heimsins á herðum sér,“ segir hún.

Skýtur á fréttastofu Ríkisútvarpsins

Davíð segir það ágætt að Ísgerður hafi skrifað grein og tekur undir með henni að vissulega sé erfitt að skrifa fréttir á skömmum tíma og gæta þess „að allt sé svo satt og rétt,“ án þess að tekinn sé „stór sveigur fram hjá hvoru tveggja.“ Það geri fréttastofa RÚV þó oft.

„En það dregur væntanlega úr skaðanum að neytendur þeirra frétta eru oftast fullþroska fólk sem verður með tímanum varara um sig gagnvart slíkum fréttum.“ Ísgerður neitar því að þættirnir séu skaðlegir og það þurfi enginn að horfa á þættina frekar en þau vilja. Raunar mælist þau sem að þáttunum standi til þess að foreldrar horfi á þættina með börnum sínum svo að þau geti útskýrt fyrir þeim alvarlegar fréttir. Þættirnir séu líka mikilvægir til að fræða börn. „Það er ekki lengur þannig að þú getir haldið hlutum frá krökkum,“ mikilvægt sé að það sé til staður þar sem börn geta fengið réttar upplýsingar.