Í Reykjavíkurbréfi sínu í helgarútgáfu Morgunblaðsins gagnrýnir Davíð Oddsson forystu Sjálfstæðisflokks harðlega. Hann sakar hana um reynsluleysi og áhugaleysi um vilja stórs hluta flokksmanna og gagnrýnir stuðning flokksins við þriðja orkupakkann, ásamt því að tjá sig um skipun Más Guðmundssonar í starf seðlabankastjóra.

Davíð segir að núverandi leiðtogum flokksins sé sama um það sem sé samþykkt á landsfundum og segir um hana: „Nú þykir fínt að reynslulítið fólk, sem hefur fengið pólitískt vægi með slíkt nesti langt umfram það sem áður tíðkaðist, tali niður til flokkssystkina sinna og leggi lykkju á leið sína til að vísa þeim sem eldri eru út úr umræðunni með þótta sem fer öllum illa. Það kann ekki góðri lukku að stýra.“

Þessi gagnrýni virðist ekki síst beinast gegn Þór­dísi Kol­brúnu Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ur, vara­for­manni flokks­ins, og Áslaugu Örnu Sig­ur­björns­dótt­ur, rit­ara.

Davíð segir að enn sé eldra fólk í hópi góðra stuðningsmanna flokksins og að vilji þeirra sé hunsaður. Hann segir kannanir sýna að stór hluti Sjálfstæðismanna sé á móti þriðja pakkanum en að vilji þeirra sé ekki virtur.

Fyrir viku skrifaði Davíð annað Reykjavíkurbréf þar sem hann gagnrýndi Sjálfstæðisflokkinn og leiðtoga hans sem hefur vakið nokkur viðbrögð. Meðal annars frá Halldóri Blöndal, fyrrverandi ráðherra og forseta Alþingis, sem starfaði með Davíð um langt skeið. Halldór er frændi Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokks.

Davíð segir að áður fyrr hafi Halldór stundum „haft áttavita sem mátti hafa hliðsjón af. En hann ratar illa eftir að notkunin á ættarvitanum óx. Og lendir þá í hverri hafvillunni af annarri.“

Segir að ekki hafi átt að skipa Má

Davíð segir líka að Bjarni Benediktsson hafi sagt að hann ætlaði ekki að skipa Má Guðmundsson aftur sem seðlabankastjóra árið 2014, eins og kom á daginn, en að Bjarni hafi skipt um skoðun á síðustu stundu vegna „óvænts flækju­stigs sem upp hefði komið“. Þá hafi samt bara átt að skipa Má til eins árs, þó annað stæði í skipunarbréfinu, en Már er enn seðlabankastjóri og verður það þar til í í ágúst.