David Attenborough, einn frægasti talsmaður dýra-og náttúruverndar, fagnar 95 ára afmæli sínu í dag, þann 8. maí.

Afmæliskveðjum rignir yfir Attenborough og er nafn hans nú á lista yfir vinsælustu umræðuefni dagsins á Twitter, sem skaut mörgum netverjum skelk í bringu sem töldu hann látinn.

Breska ríkisútvarpið BBC kastar kveðju á sjónvarpsmanninn á Twitter með skemmtilegum myndum úr ferli hans, meðal annars frá ferð hans til Íslands. Attenborough sést stilla sér upp fyrir mynd í fjörunni við Stokksnes í Hornafirði, fjallið fyrir aftan hann er Eystra-horn, eins og það hét upphaflega í Landnámu, en hefur í seinni tíð verið kallað Vestra-Horn, þar sem það er vestast í Lónssveit.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, óskar einnig Attenborough til hamingju með daginn og þakkar honum fyrir vel unnin störf í þágu plánetunnar.

Attenborough sló met á sínum tíma þegar millj­ón manns fylgdu hon­um á In­sta­gram á 4 klukku­stund­um og 44 mín­út­um þegar hann stofnaði aðganginn sinn. Hér má sjá síðasta myndbandið sem hann birti í lok október á síðasta ári. Þar sagðist hann hafa lokið verki sínu og náð að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri: að sjálfbærni væri lykillinn að framtíð okkar.

Hann hefur ekkert birt síðan þá en hvetur næstu kynslóðir til að halda áfram að berjast fyrir náttúruvernd.

Attenborough deilir afmælisdegi með okkar eigin Magnúsi Tuma Guðmundssyni prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, sem er sextugur í dag.