Icesave-málið fór rækilega illa með Sjálfstæðisflokkinn. Þetta sagði Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi borgarstjóri, þingmaður, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og seðlabankastjóri, í viðtali við Pál Magnússon, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í þættinum Þingvellir á K100 í morgun þar sem Páll og Davíð fóru um víðan völl.

Páll hóf viðtalið á því að spyrja um stöðu Sjálfstæðisflokksins, sem Davíð leiddi til fjölda ára, og hvers vegna fylgi flokksins nú væri bara um helmingur þess sem það var á árum áður.

Sagði Davíð fleiri skýringar á því en eina. Raunar væri hægt að horfa til nágrannalandanna þar sem rótgrónir og stórir flokkar væru í vandræðum. „Flokkur forsetans í Frakklandi fór í sjö eða fimm prósent þegar Macron kom þar inn með einhvern milliflokk sem hann stofnaði. Sama hefur gerst í Þýskalandi. Krataflokkurinn þar fór mjög illa í síðustu kosningum,“ sagði Davíð og bætti því við að víða ættu breytingar sér stað.

Þáttaskilin við hrunið

Davíð sagði að þáttaskilin hefðu orðið við hrunið. „Og því hruni var eiginlega komið á Sjálfstæðisflokkinn flokkslega. Margir reyndu nú reyndar að koma því í leiðinni á mig sérstaklega, sem var svo sem fyrirsjáanlegt jafnvel,“ sagði Davíð.

Hins vegar hafi flokkurinn verið að ná sér nokkuð vel frá hruninu þegar hann óvænt kúventi og „fór með ríkisstjórn Jóhönnu Steingrímsdóttur í Icesave-málinu“, hélt Davíð fram. 

„Á því hefur aldrei fengist fullnægjandi skýring, af hverju það var gert. Það voru kannanir, meðal annars leynikannanir sem flokkurinn hafði gert, sem sýndu flokkinn í góðri stöðu. Vel yfir fjörutíu prósentum. Þeir sem gerðu könnunina mátu stöðuna þannig að fátt gæti haggað því. Þetta fór rækilega illa með hann.“

Skorti skilin

Davíð nefndi svo aðra ástæðu. „Eins og ég held að það hafi líka verið varðandi stjórnina sem tók við 2013. Að það voru engin skil gerð við vinstristjórnina sem fór. Ég er nú reyndar ekki að kenna Sjálfstæðisflokknum um það. Ég held að ríkisstjórnin sem slík hafi gert mistök með því að gera ekki mjög sterk og mikil skil,“ sagði Davíð.

Sagði Davíð að skattar hafi verið hækkaðir hundrað sinnum í tíð vinstristjórnarinnar „og alltaf með vísun í hrunið“. Eitthvað af þeim hækkunum hafi átt rétt á sér en engu að síður hafi sá tími verið liðinn þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við árið 2013. 

„En það gerðist ekkert. Það varð aldrei þessi mikla breyting. Ég er ekki að segja að menn hafi ekki gert eitt og annað gott. En það voru ekki þessi kaflaskil sem þarna urðu,“ sagði Davíð.

Gott af því að tapa

Páll talaði um að margir innan Sjálfstæðisflokksins horfðu aftur til tíma Davíðs, tíma mikilla sigra, og efuðust um að hann kæmi aftur. Minnti Davíð þá Pál á forsetakosningarnar árið 2016.

„Þú varst nú svo huggulegur áðan að nefna ekki framboð mitt til forseta þar sem ég fór nú út á rassinum svolítið. Ég held að ýmsir hafi nú talið að ég hafi haft dálítið gott af því. Ég er ekki frá því að það sé rétt,“ sagði Davíð og hló.

Svo fór í þeim kosningum að Davíð varð í fjórða sæti, fékk 13,7 prósent atkvæða. Rithöfundurinn Andri snær Magnason fékk 14,3 prósent, athafnakonan Halla Tómasdóttir fékk 27,9 prósent og sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson vann sigur með 39,1 prósent atkvæða.

Ekki á förum

Davíð varð ritstjóri Morgunblaðsins árið 2009. Þegar hann varð sjötugur fyrr á árinu var hann spurður hvort hann ætlaði að hætta og sagðist hann þá hvergi á förum. Þessa afstöðu sína ítrekaði hann í viðtalinu í morgun. 

Sagðist hann ekki hafa verið beðinn um að hætta og að hann liti svo á að hann gæti stýrt blaðinu áfram í sjö ár eða svo.