Innlent

Davíð Þór nennir ekki „böggi og leiðindum“

Hörð orð hafa verið látin falla um séra Davíð Þór Jónsson á Útvarpi Sögu síðasta sólahringinn. Honum hefur verið bent á að kanna réttarstöðu sína með tilliti til meiðyrðamála. Þá er kæra á hendur honum í hefðbundnu stjórnsýsluferli hjá embætti biskups.

Segja má að Davíð Þór sé milli steins og sleggju, Arnþrúðar og Péturs, en lætur sér það í léttu rúmi ligga. Fréttablaðið/Samsett

Pönktexti eftir séra Davíð Þór Jónsson, sóknarprest í Laugarneskirkju, um Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra á Útvarpi Sögu, hefur valdið miklu fjaðrafoki á útvarpsstöðinni síðustu daga. Arnþrúður, Pétur Gunnlaugsson, stjórnandi símatíma stöðvarinnar, og innhringjendur hafa látið stór og ljót orð falla um klerkinn sem flest eru þess eðlis að þau eru vart eftirhafandi.

Davíð Þór segist í samtali við Fréttablaðið hafa heyrt ávæning af svívirðingunum en hafi ekki lagt á sig að hlusta á ósköpin. „Ég hef eiginlega ekki haft tíma til þess og hef annað að gera á daginn en hlusta á útvarp. Ég hef frétt útundan mér af því hvaða hamförum er verið að fara gegn mér á ákveðnum stöðum. En ég læt mér það í léttu rúmi liggja.“

Sjá einnig: Davíð Þór fær óvæntan stuðning á vef Útvarps Sögu

Davíð Þór segir þó nokkra hafa hringt í sig og hvatt hann til þess að íhuga meiðyrðamál. „Fólk hefur hringt í mig og spurt hvort ég ætli að láta þetta yfir mig ganga. Ég hef verið hvattur til þess að kanna stöðu mína gagnvart þessu fólki varðandi íslenska meiðyrðalöggjöf. Ég er að velta því fyrir mér en það sem letur mig svolítið til þess er að þá þarf ég væntanlega að fara hlusta á þetta og eyða tíma, sem ég er ekki aflögufær um, í eitthvað sem er fyrirlitlegt og bara bögg og leiðindi.“

Davíð Þór veltir fyrir sér hvort ekki sé „betra að láta eins og verið sé að stökkva vatni á gæs heldur en að láta eins og þetta nái til manns? Ég eiginlega nenni því ekki. Ég nenni ekki að gefa þessu fólki meira pláss í lífi mínu en það er þegar búið að frekja undir sig.“

Pönkið í ferli hjá biskupi

Davíð Þór staðfestir að málið er komið á borð biskups þar sem það er í venjulegu ferli. „Þegar biskupi berst formlega kæra á prest þá ber henni skylda til að taka kæruna alvarlega, alveg óháð því hvað henni kann persónulega að finnast um hana,“ segir Davíð Þór.

„Þá fer hún bara í ferli og það fyrsta sem gerist í því ferli er að andmælaréttur prests er virtur. Og þessar kærur sem hafa borist biskupi út af mér eru bara í því ferli núna, þannig að það verður bara að koma í ljós. Á þessu augnabliki er ferlið á þeim stað að ég er að nýta mér andmælarétt minn.“

Davíð Þór segir einfaldlega um ákveðið stjórnsýslulegt ferli innan kirkjunnar „sem fer í gang alveg óháð því hve gáfuleg eða réttmæt kæran er. Það fer svo náttúrlega eftir eðli hennar hve langt hún fer í ferlinu áður en hún er vegin og metinn og er annað hvort léttvæg fundin eða hvort hún leiðir til áminningar eða eitthvað svoleiðis.“

Heppileg tímasetning á fári

Pönksveitin Austurvígstöðvarnar stendur fyrir söfnun á Karolina Fund til þess að fjármagna útgáfu hljómplötu með lagin umdeilda og fleiri pönktextum eftir Davíð Þór. 

„Þetta fjölmiðlafár núna kemur náttúrlega í sjálfu sér á besta tíma fyrir okkur. Við erum með Karólína-söfnun fyrir útgáfunni okkar og hún hefur tekið kipp. Þannig að í raun og veru stend ég í svolítilli þakkarskuld við þau á Útvarpi Sögu.  Fyrir alla þessa fínu auglýsingu.“

Þakklætið er þó blendið enda finnst Davíð Þór „náttúrlega svolítið fyndið að miðað við þau ummæli sem þarna falla um mig að þau telji sig eiga inni afsökunarbeiðni frá mér eða telja sig hafa í höndum meiðyrðamál á mig. Einhverjum kynni nú að koma í huga fleyg orð um flísar og bjálka í augum.“

Pönk er pönk

„Ég hef frá blautu barnsbeini fengist við að berja saman ýmis konar kveðskap við hin ýmsu tækifæri og þegar maður er í pönkhljómsveit þá setur maður sig í ákveðnar stellingar.

Til dæmis er ég í öðrum stellingum þegar ég er að yrkja fyrir Austurvígstöðvarnar heldur en þegar ég yrki sálm. Í  Sálmabók Þjóðkirkjunnar sem nú er í vinnslu verður sennilega einn sálmur eftir mig sem er mikill heiður og upphefð fyrir mig.“

Davíð Þór segir í raun langa hefð fyrir því að prestar æri óstöðuga með kveðskap. „Það má svosem geta þess að ég er ekkert fyrsti presturinn til þess að fást við kveðskap eða senda frá sér kviðlinga sem hafa farið fyrir brjóstið á fólki. Það er bara gömul þjóðleg hefð.

En maður náttúrlega lætur orðfærið og andblæ ljóðsins taka mið af því samhengi sem það er ort í. Og þegar maður yrkir söngtexta fyrir andfasíska, blóðhráa, grimmpólitíska pönkhljómsveit þá náttúrlega talar maður ekkert rósamál.

Pönk er pönk og pönk á að vera hættulegt, á að vera ögrandi, á að ögra og storka valdhöfum í stuttu máli gera allt það sem Jesús Kristur var tekinn af lífi fyrir.“  

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Davíð Þór sýnir „hugar­far dópistans“

Innlent

Davíð Þór fær óvæntan stuðning á vef Útvarps Sögu

Innlent

Vilja að biskup reki „klámklerkinn“

Auglýsing

Nýjast

Tekinn aftur á ríflega 130 á Reykjanesbraut

Lög­reglan leitaði að „Stúfi“ í Bú­staða­hverfi

Segja asbest í barnapúðri Johnson & Johnson

Tekinn á 132 með vélsleðakerru í eftirdragi

Kældi brennandi bíl með snjó

Glæ­ný Boeing-þota nauð­lendir í Íran

Auglýsing