Sveitarfélagið Ölfus hefur tekið ákvörðun um að ráðast í urðun sandreyðarinnar, sem rak upp í fjöru við Þorlákshöfn, eftir helgi. Er það gert til að gefa áhugasömum færi á að skoða hvalinn í blíðunni um helgina.

Veðurspá er með besta móti og vill Sveitarfélagið Ölfus hvetja íbúa á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannabyggðum til að gera sér dagamun með því að skoða hvalinn sem svo heppilega vill til að er afar aðgengilegur. Áhugasömum er bent á bílastæði við golfvöllinn en þaðan er örstuttur gangur að hvalnum.

Stoltur bæjarstjóri á Þolloween

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, segir að það sé ekki algengt að hval reki upp á land og hann sé stoltur af því að geta boðið bæjarbúum upp á slíka sýningu.

„Það er ekki á hverjum degi sem svona stórhveli í svona góðu ásigkomulagi skolar á land. Flest bendir til að hvalurinn sé nýdauður. Hann liggur í þessari fallegu fjöru á aðgengilegum stað þannig að okkur fannst full ástæða til að gefa fólki helgina til að koma og berja hann augum,“ segir Elliði.

Hvalur Skíðishvalur hvalreki þorlákshöfn dýr náttúra 13.jpg

Á vef Náttúrufræðistofnunar segir að sandreyður haldi til á heittempruðum eða hitabeltissvæðum á veturna. Yfir sumarið leita sandreyðar í kaldari sjó til fæðunáms og sjást helst við Ísland síðla sumars og fram á haust. Sandreyðar geta orðið 60 ára gamlar. Kálfar eru á spena í 6-7 mánuði en algengt virðist að um þrjú ár líði á milli kálfa hjá hverri kú. Sandreyður er, ásamt langreyðum, hraðsyndastur allra hvala og geta náð allt að 40 kílómetra hraða á klukkustund.

Óttalega vinalegur í flæðarmálinu

Sandreyður er þriðja stærsta tegund reyðarhvalaættarinnar og vegur yfir 20 tonn.

„Bæjarbúar eru ánægðir með að fá að skoða hann. Hér er bæjarhátíð sem stendur yfir og kallast Þolloween sem er skírskotun í Halloween og það er stöðug dagskrá alla helgina,“ segir Elliði. Allt gangi þetta út á drauga, forynjur og hryllilegar verur. „Þannig að dauður hvalur kemur beint inn í það mengi þó hann sé nú óttalega vinalegur þarna í flæðarmálinu.“

Hvalur Skíðishvalur hvalreki þorlákshöfn dýr náttúra 15.jpg

Elliði segir að bæjarbúar muni taka vel á móti hvalagestum helgarinnar með sinni góðu sundlaug og hvetur gesti til að fá sér ís á eftir.

„Íslendingar búa í nágrenni við náttúruna og það er engin ástæða fyrir okkur hjá hinu opinbera að fjarlægja fólk frá náttúrunni, segir bæjarstjórinn.

„Það er okkar hlutverk að auðvelda fólki aðgengi og hvetja til þess að njóta náttúrunnar í staðinn fyrir að rjúka til eins og hún sé eitthvað sem sé ekki æskilegt að njóta.“