Tveimur mönnum sem var gefið að sök að svipta ungt par, mann og konu, frelsi sínu og rænt þau um nótt í apríl 2020, játuðu sök í aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þeir höfðu áður játað að hluta, en breyttu afstöðu sinni fyrir aðalmeðferðina.

Atvikið sem málið varðar átti sér stað í bíl parsins við Hagkaup í Skeifunni. Í ákærunni segir að mennirnir tveir hafi sest í aftursæti bílsins, sem var kyrrstæður. Þar hafi þeir lagt hníf að hálsi þeirra, kýlt og gefið þeim olnbogaskot í gagnaugað, hótað að stinga þau með sprautunál og hótað þeim líkamsmeiðingum og lífláti.

Þeir þvinguðu manninn til að millifæra inn á annan manninn 780.000 krónur. Auk þess tóku þeir símana þeirra af þeim og lyklana að bílnum.

Stunguárás opnaði á honum augun

Báðir mennirnir báðust afsökunar á gjörðum sínum, sögðust eiga við fíknivanda að stríða og væru annars vegar á leið, og hins vegar í meðferð vegna hans.

Annar maðurinn, sem er rúmlega tvítugur og hefur einu sinni áður hlotið dóm, varð síðan sjálfur fyrir stunguárás eftir frelsissviptinguna. Sá sem stakk hann hlaut tveggja ára dóm á dögunum vegna málsins.

„Ég verð fyrir stungu og missi næstum því líf mitt,“ sagði maðurinn. „Það opnaði augu mín.“ bætti hann við og sagðist nú átta sig betur á því hversu slæmar gjörðir sínar hefðu verið. Verjandi hans tók fram að það hafi verið endanlegur botn fyrir hann að verða sjálfur fyrir þeirri árás, nú sé hann í meðferð og snúinn til betri vegar.

„Ég dauðsé eftir þessu“

„Þetta er skelfilegt brot, virkilega,“ sagði hinn maðurinn, sem er á fertugsaldri og á tuttugu ára brotaferill að baki. „Ég biðst innilegrar afsökunar. Ég dauðsé eftir þessu.“

Hann tók fram að hann væri kominn með pláss í meðferð og biði nú eftir því að komast þar að. Þá sagðist hann hafa verið að takast á við fíknivandan í langan tíma.

Mennirnir fóru inn í bíl parsins sem var fyrir utan Hagkaup í Skeifunni.
Fréttablaðið/Vilhelm

Óttuðust um líf sitt

Lögmaður parsins krafðist þess í ákæru að manninum yrði greitt 1.480.000 krónur ásamt vöxtum og konunni 700.000 krónur ásamt vöxtum. Fyrir dómi rökstuddi hann kröfurnar með því að benda á að um alvarlega árás væri að ræða og sagði að parið hefði óttast um líf sitt umrædda nótt.

Lögmenn mannanna tóku fram að þrátt fyrir að þeir játuðu sök og bótaskyldu þættu þeim kröfurnar of háar.

Saksóknari sagði að sér þætti hæfileg refsing vera fimmtán mánuðir. Lögmaður yngri mannsins sagði að sér þætti að refsing ætti ekki að fara umfram tólf mánuði.

Þá tók hann fram að honum fyndist ákæran sett fram á óskýran hátt, til að mynda varðandi það hver hefði gert hvað í atvikinu, eins og hver hefði haldið á vopnunum. Auk þess vísaði hann til þess að engir líkamlegir áverkar hefðu verið á brotaþolum. Þrátt fyrir það væri skjólstæðingur hans fullmeðvitaður um að málið væri alvarlegt.