Nýjar tölur sýna mikla aukningu á útbreiðslu Covid-19 í Evrópu. Á einni viku hefur dauðsföllum af völdum veirunnar fjölgað um 54 prósent innan ESB og Schengen svæðisins. SVT greinir frá.

Jan Albert, prófessor í smitvörnum við Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi segir í samtali við sænska ríkisútvarpið að þessi hraða aukning hafi komið mjög á óvart.

Þrjú þúsund fleiri dauðsföll

Samkvæmt nýjustu tölum frá smitvarnarstofnun Evrópusambandsins (ECDC) hefur fjöldi látinna nú aukist töluvert. Tilkynnt var um 54 prósent fleiri dauðsföll af völdum veirunnar í síðustu viku miðað við vikuna þar á undan. Fyrir tveimur vikum voru skráð dauðsföll innan ESB og Schengen 5.261 en í síðustu viku voru þau 8.137.

Albert telur að aukningin geti stafað af nokkrum þáttum.

„Margir slökuðu á í sumar, fannst eins og það stafaði ekki jafn mikil hætta af faraldrinum og áður og flestir snéru aftur til eðlilegra lífs. Þá er líklegt að veiran nái að dreifa sér betur á veturna og sé nú sterkari en áður."

Samkvæmt tölum ECDC hefur útbreiðsla kórónuveirunnar aukist mjög verulega, einnig í löndum þar sem útbreiðsla hefur hingað til ekki verið mikil.

Lítur ekki vel út

Þau lönd sem hafa orðið fyrir hröðustu aukningu í nýjum smitum eru Tékkland, Belgía og Slóvenía. Til að reikna það út er stuðst við nýgengni smita, það er fjöldi smita á hverja 100 þúsund íbúa síðustu 14 daga. Hér á landi er nýgengni innanlandssmita nú 221,4. Í Slóveníu eru 792 smitaðir af hverjum 100 þúsund. „Þetta lítur ekki vel út. Þetta sýnir okkur hvað það er erfitt að losna alveg við þessa veiru," segir Jan Albert.

Útgöngubann skammtímalausn

Bretland, Frakkland og Spánn eru þó enn þau lönd sem hafa orðið verst úti í faraldrinum í álfunni. Emmanuel Macron, forseti Frakklands tilkynnti um hertari aðgerðir þar í landi fyrr í kvöld en þar verður sett á strangt útgöngubann sem tekur gildi á föstudaginn.

Albert segir að nú þurfi allar þjóðir að bregðast við og aðgerða sé þörf en að útgöngubann sé kannski ekki besta leiðin.

„Ég held að það hjálpi til skamms tíma. Ef enginn htitir neinn þá smitast enginn. En að lokum verðum við að hitta annað fólk og þá getur smitum fjölgað enn hraðar en ella."