Aukning var í innlögnum einstaklinga með greinda ópíóíðafíkn á Vog á síðasta ári miðað við árin á undan. Árið 2020 var hlutfall sjúklinga á Vogi sem notuðu ópíóíða 25,1 prósent miðað við rétt rúm tíu prósent árið 2010 og 17,6 prósent árið 2015.

Hlutfall sjúklinga á Vogi í fyrra með greinda ópíóíðafíkn var tæplega 16 prósent sem er 2,5 prósenta aukning miðað við 2019 og sex prósenta aukning miðað við árið 2010. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, segir ópíóíðafíkn afar hættulega, ofskammtar af slíkum efnum geti valdið dauðsföllum.

„Það eru miklu meiri líkur á að þú deyir af ofskammti af þessum lyfjum heldur en nokkrum öðrum lyfjum,“ segir Valgerður.Ópíóíðalyf eru til dæmis morfínlyf, oxykontín og parkódín. Segir Valgerður þau hættulegust séu þau reykt eða sprautað í æð. Mest aukning hafi verið á neyslu þeirra í æð.

Á síðasta ári fjölgaði dauðsföllum vegna of stórra lyfjaskammta um 30 prósent í Bandaríkjunum og um sex prósent í Skotlandi. Þrátt fyrir aukna neyslu ópíóíðalyfja hérlendis virðist dauðsföllum af völdum þeirra ekki hafa fjölgað samkvæmt upplýsingum af vef Embættis landlæknis.

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi.
Fréttablaðið/Anton Brink

Á síðasta ári létust 37 einstaklingar vegna lyfjaeitrunar hér á landi. Meðalfjöldi einstaklinga sem látast af þeim orsökum árlega síðustu fimm ár er 32,2 einstaklingar. Árið 2019 voru þeir 30 talsins og árið 2018 voru þeir 39.Valgerður segir góðar fréttir að dauðsföllum af völdum lyfjaeitrunar hafi ekki fjölgað hér ört líkt og gerst hafi í öðrum löndum, þessar tölur telji þó með allar lyfjaeitranir, ekki einungis af völdum ópíóíða.

Valgerður segir gott aðgengi að meðferðum og velferðarkerfinu hér á landi geta verið skýringu á að dauðsföllin séu ekki fleiri en raun beri vitni. „Staðreyndin er sú að meðferðirnar geta bjargað lífum og það hefur orðið aukning á því, það hefur orðið mikil fjölgun í lyfjameðferðinni við ópíóíðafíkn hjá SÁÁ,“ segir hún.

Meðferðir sem veittar eru við ópíóíðafíkn á Vogi eru viðhaldsmeðferðir. Þar fá sjúklingar lyfjameðferð við fíkninni. Notuð eru lyfin Suboxone, Buvidal og Methadon sem draga úr fíkn og hættulegum afleiðingum af neyslu ópíóíða.„Lyfin eru notuð til að meðhöndla fíknina en koma ekki í staðinn fyrir vímuefni,“ útskýrir Valgerður.

„Þessi lyf hafa verið með okkur í áratugi og eru einnig notuð í öðrum löndum svo það er komin löng reynsla á þau,“ bætir Valgerður við.„Það eru ekki til svona lyf við annarri fíkn eins og til dæmis amfetamíni, en fólk fær þessi lyf reglulega og við höldum utan um meðferðina hjá okkur,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir.