Að minnsta kosti tveir létust og fjöldi manns slasaðist í sprengingu á markaði í Jerevan, höfuðborg Armeníu, í dag. Mikill eldur kviknaði í kjölfarið og það hefur tekið slökkviliðsmenn marga klukkutíma að reyna að hemja hann.

Leit stendur yfir af fólki sem kann að hafa grafist undir brotnu malbiki og járni eftir sprenginguna. Haft hefur verið eftir armenska heilbrigðisráðuneytinu að minnst sextíu manns hafi slasast í sprengingunni. Tvö andlát hafa verið staðfest samkvæmd færslu ráðuneytisins á Telegram.

Orsakir sprengingarinnar eru enn ókunnar en svo virðist sem upptök hennar hafi verið í vöruhúsi þar sem flugeldar voru geymdir. Kviknað hefur á fleiri flugeldum í eldinum og hefur þetta erfiðað björgunaraðgerðir og leit í rústunum.