Óttast er að margir hafi látist er jarð­skjálfti að stærð 7,2 skall á Haítí í karabíska hafinu. Skjálftinn varð um klukkan hálf níu í morgun að staðar­tíma, hálf eitt að íslenskum tíma, og átti upp­tök sín um átta kíló­metrum frá bænum Petit Trou de Nippes í vestan­verðu landinu.

Em­bættis­menn segja að nú þegar hafi verið til­kynnt um dauðs­föll og á sam­fé­lags­miðlum hafa birst myndir af hrundum húsum og öðrum mikið skemmdum. Stór jarð­skjálfti var á eyjunni árið 2010 og er landið enn að glíma við eftir­köst hans. Þá létust um tvö hundruð þúsund manns. Haítí er fá­tækasta land á vestur­hveli jarðar.

Sam­kvæmt banda­rísku jarð­vísinda­stofnuninni varð skjálftinn á um tíu kíló­metra dýpi og varð í um 150 kíló­metra fjar­lægð frá höfuð­borginni Port-au-Prince. Flóðbylgjuviðvörun hefur verið gefið út en óttast er að þær geti náð allt að þriggja metra hæð.

„Ég get stað­fest dauðs­föll en ég veit ekki enn hve mörg. Við erum enn að safna upp­lýsingum,“ segir Jerry Chandler, yfir­maður al­manna­varna Haítí, í sam­tali við AFP.

Kort frá BBC sem sýnir upp­tök skjálftans.
Mynd/BBC