Þrjú dauðsföll hafa orðið hér á landi hjá einstaklingum sem nýlega fengu bóluefni Pfizer gegn kórónuveirunni. Vísir greinir frá þessu en Rúna Hauksdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, var í viðtali í Reykjavík síðdegis í dag. Allir þessir einstaklingar voru með undirliggjandi sjúkdóma.
Í viðtalinu í Reykjavík síðdegis var spurð út í aukaverkanir vegna bóluefnis Pfizer gegn COVID-19, en bólusetningar hófust hér á landi í síðustu viku. Aldraður sjúklingur með undirliggjandi sjúkdóm lést um helgina, en hann hafði nýlega fengið bóluefni Pfizer gegn COVID-19.
Rúna sagði að óljós tengsl væru á milli bólusetningarinnar og dauðsfallanna. Annað dauðsfallið snýr að einstaklingi sem lenti á gjörgæslu, en var einnig með undirliggjandi sjúkdóm. Í viðtalinu í Reykjavík síðdegis kom fram að Lyfjastofnun hefðu borist tólf tilkynningar um aukaverkanir, þar af tvær vegna alvarlegra aukaverkana. Í frétt RÚV nú á sjötta tímanum segir Rúna að tilkynningarnar væru orðnar sextán og fjórar vegna alvarlegra aukaverkana.
Rúna sagði mikilvægt að það kæmi fram að í þessari fyrstu umferð bólusetningar gegn COVID-19 væri verið að bólusetja elsta og veikasta hópinn. „Þetta geta verið aldraðir sjúklingar með undirliggjandi sjúkdóma og langvinn veikindi,“ sagði hún.
Aðspurð sagði Rúna að ákveðið ferli fari í gang þegar tilkynnt er um alvarlegar aukaverkanir, bæði hjá Lyfjastofnun og Evrópsku lyfjastofnuninni. „Við gerum þetta í samvinnu við embætti Landlæknis, en oft er ekkert hægt að finna orsakasamhengi. Það verður að segjast eins og er,“ sagði Rúna en bætti við að allt saman yrði þetta skoðað.
„Þess vegna leggjum við líka mjög mikla áherslu á það að aukaverkanir séu tilkynntar. Það er mjög mikilvægt að fá þær inn til þess að safna þeim saman, fyrir öll ný lyf og ekki síst þessi bóluefni.“
Fréttin hefur verið uppfærð.