Interpol gaf út handtökuskipun á Bin Laden í mars árið 1998 fyrir morðið á Silvian Becker og Veru eiginkonu hans í Líbýu árið 1994. Kviðdómur í Bandaríkjunum gaf einnig út ákæru gegn honum árið 1998, fyrir hryðjuverkaárásirnar á sendiráð Bandaríkjanna í Keníu og Tansaníu sama ár, en yfir tvö hundruð manns létu lífið í þeim árásum.

Bin Laden lýsti fyrst yfir stríði gegn Bandaríkjunum árið 1996, eftir að fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, George H. W. Bush, hafði svikið loforð sitt um að allt bandarískt herlið myndi yfirgefa Sádí-Arabíu árið 1990. Eða þegar búið væri að ná tökum á ógninni sem stafaði af Írak, að mati Bandaríkjanna. Árið 1996 voru bandarískir hermenn enn í landinu og leit Bin Laden þannig á að Bandaríkin, með stuðningi frá Ísrael, væru að reyna gera Sádí-Arabíu að nýlendu.

Lýsti yfir stríði í dagblaði

Árið 1998 birti Bin Laden svokallað „fatwā“ gegn Bandaríkjunum í dagblaðinu Al-Quads Al-Arabi sem gefið er út í London. Þar lýsti hann yfir stríði gegn Bandaríkjunum vegna landtöku herliðsins á „tveimur heilögum stöðum“ í Sádí-Arabíu, Mekka og Medina.

Bill Clinton var forseti Bandaríkjanna á þessum tíma, en í kjölfar hryðjuverkaárásanna á sendiráðin í Afríku sendi Bandaríkjaher stýriflaugar á valda staði í Afganistan og Súdan, þar sem Bin Laden var talinn halda sig.

Föstudaginn 4. desember 1998 fékk Clinton afhenta skýrslu frá leyniþjónustunni (CIA) sem sagði með skýrum hætti að Bin Laden væri að undirbúa árás, en efnislína skýrslunnar var: „Bin Ladin Preparing to Hijack US Aircraft and Other Attacks.“

Í skýrslunni var sérstaklega talað um árás á New York-borg og í kjölfarið setti Richard Clarke, formaður nefndar gegn hryðjuverkum hjá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna (Counter-terrorism Security Group), alla flugvelli í New York á hæsta öryggisstig.

Í sögufrægu viðtali Bills Clinton á Fox News árið 2006, þegar Chris Wallace reyndi að klína klúðri öryggisstofnana í aðdraganda árásanna á Clinton, sagði Clinton að enginn forseti Bandaríkjanna hefði gert meira en hann til að reyna að fá Bin Laden líflátinn.

Í viðtalinu vitnaði Wallace í bókina The Looming Tower, sem Lawrence Wright hlaut Pulitzer-verðlaun fyrir. Í bókinni er Bin Laden sagður hafa tvíeflst eftir veik viðbrögð Bandaríkjahers vegna hryðjuverkanna á sendiráðin í Afríku. Wallace spurði Clinton af hverju hann gerði ekki meira til að koma Bin Laden fyrir kattarnef og gekkst Clinton við því að hafa ekki gert nóg, þar sem hann náði honum ekki.

„En ég að minnsta kosti reyndi,“ sagði Clinton og benti á að ríkisstjórn George W. Bush, sem tók við af Clinton, fékk átta mánuði til að reyna að ná Bin Laden, en reyndi það ekki einu sinni. „Ég gerði alla vega tilraun og mistókst og þegar mér mistókst þá skildi ég eftir ítarlega áætlun gegn hryðjuverkum og hæfasta manninn í verkefnið, Dick (Richard) Clarke. Og hvað gerði Bush? Hann lækkaði hann í tign,“ sagði Clinton.

Titill bókarinnar sem Wallace vitnaði í er ekki bara vísun í tvíbura­turnana heldur er „looming tower“ eða „lofty towers“ tekið úr kóraninum, 4:78. Samkvæmt Wright vitnaði Bin Laden í versið í brúðkaupsræðu skömmu fyrir árásirnar: „Hvar sem þú ert, mun dauðinn finna þig, jafnvel þótt þú sért í himinháum turni.“

Þá væri ég ekkert betri en hann

Nokkrum klukkutímum áður en fyrsta farþegaþotan flaug inn í norðurturninn 11. september var Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, á viðskiptafundi í Mel­bourne í Ástralíu að ræða um hryðjuverkaógnina sem steðjaði að Bandaríkjunum. Á hljóðupptöku af fundinum, sem ABC News birti árið 2014, heyrðist í Clinton tala um að hann hefði næstum því verið búinn að drepa Bin Laden einu sinni. „Ég náði honum næstum og hefði getað drepið hann. En ég hefði þurft að sprengja upp lítinn bæ sem heitir Kandahar í Afganistan og drepa 300 saklausa borgara í leiðinni og þá væri ég ekkert betri en hann, svo ég gerði það ekki,“ sagði Clinton í upptöku sem Michale Kroger, fyrrum formaður Frjálslynda flokksins í Ástralíu, tók upp og var fyrst spiluð á Sky News í Ástralíu. Nokkrum tímum eftir að Clinton lét orðin falla var ráðist á Bandaríkin.

Bin Laden á topp tíu listann

Í júní 1999 setti alríkislögreglan í Bandaríkjunum Bin Laden á lista yfir tíu eftirsóttustu glæpamenn heims. Í desember 1999 fór Bin Laden í viðtal hjá pakistanska blaðamanninum Rahimullah þar sem hann sagði veru Bandaríkjahers nálægt Mekka vera ögrun við alla múslima.

Nákvæmlega níu mánuðum fyrir árásirnar, þann 11. desember árið 2000, stöðvaði hæstiréttur Bandaríkjanna endurtalningu í Flórída-fylki og lýsti því yfir að George W. Bush væri réttkjörinn forseti landsins. Bush tók svo við sem forseti Bandaríkjanna og Dick Cheney sem varaforseti í janúar 2001.

Á meðan Bush eldri tók við forsetaembættinu hokinn af reynslu í utanríkismálum, var sonur hans algjör andstæða. Bush yngri var áhugalaus um utanríkismál og hafði takmarkað ferðast. Hann hafði byggt framboð sitt að mestu leyti á breytingum á innanríkismálum, sér í lagi menntakerfinu, skattalækkunum og skuldalækkun.

Bush skipaði Donald Rumsfeld, fyrrum varnarmálaráðherra Geralds Ford og læriföður Dicks Cheney, sem varnarmálaráðherra. Hann gerði síðan Paul Wolfowitz að aðstoðarvarnarmálaráðherra. Wolfowitz og Rumsfeld voru báðir með sterka sýn á utanríkis- og varnarmál. Báðir nýfrjálshyggjumenn sem treystu hernaðarvaldi frekar en ríkiserindrekstri.

Togstreita tveggja embætta

Sem mögulegt mótvægi við Rumsfeld, Wolfowitz og Cheney, skipaði Bush Condoleezzu Rice sem þjóðaröryggisráðgjafa og hershöfðingjann Colin Powell sem utanríkisráðherra. Powell var gríðarlega vinsæll hjá bandarísku þjóðinni á þessum tíma, en hann hafði einnig verið einn traustasti ráðgjafi Bush eldri í varnarmálum.

Togstreita þessara tveggja embætta átti eftir að leika Bandaríkin grátt, en á pappírum litu þetta út fyrir að vera öflugir ráðgjafar og ráðherrar.

Í viðtali við PBS árið 2020 sagði Joshua Bolten, aðstoðarstarfsmannastjóri Hvíta hússins í stjórnartíð Bush, að hann hefði ekki valið andstæðinga í utanríkismálum til að skapa togstreitu, heldur vildi hann öfluga einstaklinga með sterkar skoðanir sem ráðgjafa. Að mati sagnfræðingsins Timothy Naftali þurfti forsetinn aftur á móti sjálfur að hafa skoðanir á hlutunum svo slíkt gengi upp.

Allt lék í lyndi fyrstu átta mánuði forsetatíðar Bush. Hann gat einbeitt sér að innanríkismálunum og kom 1,3 billjón dala skattalækkun (1,3 trillion USD) í gegnum þingið í maí 2001. Hann fékk þingmann demókrata frá Massachus­etts, Ted Kennedy, til að vinna með sér að umfangsmiklum breytingum á menntakerfinu og á meðan áframhald var á hagvexti, voru öll skilyrði fyrir skuldalækkun.

Dick Cheney og Colin Powell sitt hvoru megin við forsetann og Rumsfeld sést til hægri. Fundur í Camp David þann 15. september 2001.
Mynd/Getty Images

Augun beindust að Bin Laden

Nær allar upplýsingar frá öryggisstofnunum Bandaríkjanna fóru í gegnum Condoleezzu Rice. Síðdegis þann 11. september hringdi Rice í Sir Christopher Meyer, sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum, þar sem þau báru saman bækur sínar og sammæltust um að Bin Laden væri á bak við árásina.

Meyer greindi hins vegar frá því í viðtali að Rice hefði sagt við hann að það þyrfti að skoða hvort Írak ætti þátt í þessu. Hugmynd sem hafði fljótlega eftir árásirnar farið á milli manna í Bush-stjórninni og komið Meyer í opna skjöldu. Hugmyndin fæddist í varnarmálaráðuneyti Rumsfelds en James Bamford, höfundur, A Pretext for War, sagði að Rumsfeld hefði verið farinn að tala við samstarfsfólk sitt um möguleg tengsl Saddams Hussein við hryðjuverkin á meðan varnarmálaráðuneytið stóð enn í ljósum logum.

Á símafundi milli Wolfowitz og Cheneys stakk sá fyrrnefndi upp á að Bandaríkin skoðuðu hefndaraðgerðir gegn Írak. Cheney og Rumsfeld áttu sambærilegt samtal við Bush, þar sem þeir hvöttu hann til aðgerða gegn löndum sem hefðu hjálpað Al-Kaída, eins og til dæmis Írak.

Richard Perle, pólitískur ráðgjafi Bush varðandi öryggismál, hringdi síðdegis í David Frum, ræðuhöfund forsetans, og ýtti á orðalag sem opnaði á möguleikann á að fara í stríð við ríki, en ekki bara hryðjuverkamenn. Perle var á þessum tíma, eins og varnarmálaráðuneytið, með Írak í huga.

Þegar Bush kom aftur í Hvíta húsið um klukkan 19.00 að staðartíma var fyrsta uppkast ræðunnar tilbúið. Orðalag Perle náði í gegn og á stuttum fundi, áður en forsetinn fór í beina útsendingu, spurði Rice forsetann hvort það væri tímabært að segja þessi orð svo snemma. Bush spurði Rice hvað henni fyndist um að halda þessum orðum inni, en samkvæmt Dan Balz, blaðamanni The Washington Post, sagði Rice: „fyrstu stundirnar telja mest og við eigum að halda þessum orðum inni.“

Opnað á mögulega árás á Írak

Klukkan hálf níu að staðartíma fluttu allar sjónvarpsstöðvar Bandaríkjanna ávarp forsetans til þjóðarinnar þar sem orðin héngu inni:

„Við munum ekki gera neinn greinarmun á hryðjuverkamönnum sem stóðu að baki árásinni og þeim sem hýsa þá.“

Orðalagið eitt og sér var nægilegt til þess að gefa nýfrjálshyggjuvæng ríkisstjórnarinnar þau vopn sem þurfti til að opna á mögulegt stríð gegn Írak.

Powell kom frá Perú að nóttu til og fór samstundis á fund með forsetanum og herforingjaráði Bandaríkjanna. Powell vildi mynda bandalag með öðrum ríkjum og vinna eftir diplómatískum leiðum. Nokkuð sem var ekki á dagskrá hjá Rumsfeld og Cheney.

Margverðlaunaði blaðamaðurinn Bob Woodward skrifaði í bók sinni Bush at War, að Rumsfeld hefði sagt á fundinum að þetta væri tækifærið til að ráðast inn í Írak. Powell svaraði Rumsfeld með því að óvinurinn væri Al-Kaída og „við vitum hvar Bin Laden á heima (Afganistan).“

Bush fylgdi Powell að málum í fyrstu og hringdi í Tony Blair, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, að morgni 12. september. Bretar voru fúsir til að taka þátt í aðgerðum Bandaríkjanna gegn Al-Kaída, svo lengi sem þær væru hnitmiðaðar.

Leyniþjónusta Bandaríkjanna hóf kvöldið áður undirbúning fyrstu aðgerða gegn Al-Kaída. J. Cofer Black, sem var yfir hryðjuverkadeild leyniþjónustunnar (CTC), sagði í samtali við PBS að leyniþjónustan hefði unnið að þessu árum saman. „Á meðan allir voru að leita að kortum sínum af Afganistan vorum við tilbúin.“

Starfslið Bush kom upp starfsstöð í skólanum í Flórída til að reyna að fá upplýsingar um árásirnar. Til vinstri má sjá Andy Gray, starfsmannastjóra Hvíta hússins.
Mynd/Getty Images
Osama Bin Laden í viðtali í ágúst árið 1998 þar sem hann útskýrði af hverju hann hefði lýst yfir stríði gegn Bandaríkjunum.
Mynd/Getty Images

Bush í mánaðarfrí

Í ágúst fagnaði Bush „sex mánuðum af árangri“ (að eigin sögn) og fór í mánaðarfrí. Lengsta frí sem forseti Bandaríkjanna hefur tekið sér síðan Richard Nixon var við völd.

Á meðan Bush var í fríi fékk hann daglegar skýrslur um öryggismál Bandaríkjanna. Þann 6. ágúst var honum afhent skýrsla sem var ekki ósvipuð þeirri sem Clinton hafði fengið, en efnislínan nú var: „Bin Ladin Determined to Strike in US“.

Þjóðaröryggisstofnanir Bandaríkjanna höfðu í raun sagt Bush frá ógninni sem stafaði af Al-Kaída frá því janúar. En hryðjuverkahópurinn hafði hreiðrað vel um sig í Afganistan eftir að talíbanar tóku völdin í blóðugri borgarastyrjöld fimm árum áður.

Fyrrnefndur Richard Clarke hefur látið hafa eftir sér í viðtölum að öryggisstofnanir Bandaríkjanna hafi verið órólegar allt sumarið 2001, en upphaflega var talið að Bin Laden myndi gera árás á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, 4. júlí. Þegar þjóðhátíðardagurinn leið og ekkert gerðist, sagði Clarke að hann hefði fengið á tilfinninguna að ráðherrar í ríkisstjórn Bush teldu að upplýsingarnar frá öryggisstofnununum væru rangar.

Fyrrnefndur Naftali sagði að nýfrjálshyggjuarmur ríkisstjórnarinnar hefði ómögulega getað náð utan um þá hugmynd að heimsveldi eins og Bandaríkjunum stafaði hætta af fámennum hópi hryðjuverkamanna í fjöllum Afganistan. Þessi kaldastríðshugsunarháttur, þar sem önnur heimsveldi voru óvinurinn, átti eftir að leika þá grátt.

Ellefti september

Að morgni þriðjudagsins 11. september 2001 rændu nítján hryðjuverkamenn Al-Kaída, flest allir frá Sádi-Arabíu, fjórum farþegaflugvélum. Tveimur var flogið á sinn hvorn Tvíburaturninn, einni var flogið inn í byggingu varnarmálaráðuneytisins en sú fjórða hrapaði áður en hún náði áfangastað.

Dick Cheney var á þessum tíma staddur í Hvíta húsinu og vísaði leyniþjónustan honum samstundis niður í öruggt rými neðanjarðar. Á meðan varaforsetinn beið eftir öruggri leið til samskipta gat hann lítið annað gert en að fylgjast með fréttum. Hann og Condoleezza Rice horfðu því saman á suðurturninn hrynja.

Leyfi til að skjóta niður farþegavél

Cheney lýsti atburðarásinni ágætlega sjálfur í Meet the Press þann 16. september 2001, en leyniþjónusta Bandaríkjanna tilkynnti honum að grunur væri á að farþegaflugvél stefndi á Hvíta húsið.

Skömmu síðar fékk hann upplýsingar um að flugvél hefði verið flogið á byggingu varnarmálaráðuneytisins. Algjör glundroði átti sér stað innan veggja Hvíta hússins og var upphaflega talið að sex flugvélum hefði verið rænt. Cheney segist hafa fengið leyfi til að skipa flughernum að skjóta niður farþegaflugvélar.

Títtnefndur Richard Clarke var einnig í neðanjarðarbyrginu og lýsti því vel í samtali við PBS að Cheney hefði mælt með því að skjóta niður farþegaflugvélar ef þær vélar væru undir stjórn hryðjuverkamanna og stefndu í átt að þýðingarmiklum skotmörkum eins og þinghúsinu eða Hvíta húsinu.

Ekki langt frá var farþegaflugvél sem talin var stafa ógn af og gaf ­Cheney skipun um að skjóta hana niður. Skömmu síðar hvarf hún af ratsjá og skelfing greip alla sem voru í neðanjarðarbyrginu þar sem óvissa ríkti um hvort flugherinn hefði skotið niður farþegaflugvél eða ekki. Flugvélin var United Air­lines 93 en farþegar reyndu að ná vélinni úr höndum hryðjuverkamanna og brotlenti hún í Pennsylvaníu. Cheney hélt um stund að hann bæri ábyrgð á að vélin hefði verið skotin niður.

Ringulreið í ráðuneytinu

Óttast var að utanríkisráðuneytið væri mögulegt skotmark. Colin Powell, utanríksráðherra Bandaríkjanna, var í Lima í Perú, og var því Richard Armitage aðstoðarutanríkisráðherra starfandi utanríkisráðherra. Illa gekk að koma upplýsingum til Powells þar sem allar símalínur lágu niðri, en hann fór samstundis í flug til Bandaríkjanna.

Ringulreiðin var algjör í utanríkisráðuneytinu að sögn Armitage, en meðan á þessu stóð heyrðist hávær hvellur fyrir utan ráðuneytið sem skapaði mikinn ótta á meðal starfsmanna.

Skömmu síðar greindi sjónvarpsstöðin CNN frá því að bílsprengja hefði sprungið fyrir utan utanríkisráðuneytið, en það reyndist hins vegar rangt.

Bush var eins og frægt er staddur í grunnskóla á Flórida á meðan Cheney stýrði aðgerðum úr Hvíta húsinu. Rice hringdi í Bush og lét hann vita að flugvél hefði flogið inn í norðurturn Tvíburaturnanna. Á þeim tíma var talið að um litla flugvél og slys væri að ræða. Bush hélt heimsókn sinni áfram og settist inn í skólastofu á meðan starfsfólk Bush óskaði eftir að fá sjónvarp fært inn í aðra skólastofu. Starfsmenn Bush sáu þar seinni flugvélina fljúga inn í suðurturninn, eins og meirihluti bandarísku þjóðarinnar.

Forseti Bandaríkjanna var á þessum tíma á meðal örfárra sem vissu ekki að seinni farþegaflugvélinni hefði verið flogið inn í suðurturninn. Andy Card, starfsmannastjóri Hvíta hússins, tók málin í sínar hendur: Gekk að forsetanum og hvíslaði í eyra hans að önnur flugvél hefur flogið inn í hinn turninn og að ráðist væri á Bandaríkin.

„Og ég var að horfa á barn lesa,“ rifjaði Bush upp í viðtali hjá BBC fyrr í þessum mánuði. „Svo sá ég blaðamennina aftast í herberginu byrja að fá sömu skilaboð ég var að fá. Ég sá óttann í andlitum þeirra. Í krísu er mikilvægt að halda ró sinni svo ég beið eftir rétta tímanum til að yfirgefa skólastofuna. Ég vildi ekki gera neitt of dramatískt,“ sagði Bush enn fremur.

Forsetinn hafður í loftinu

Bush hóf ásamt starfsliði sínu samstundis störf, í skólastofu fjarri blaðamönnum og reyndi hann að komast að því símleiðis hvað væri í gangi. Bush var síðan fluttur í forsetaflugvélina sem var haldið á lofti á meðan hættan leið hjá.

Höfuðstöðvar leyniþjónustunnar (CIA) í Langley voru rýmdar í varúðarskyni. Örfáir starfsmenn voru eftir í höfuðstöðvunum til að halda nauðsynlegri starfsemi áfram. Meðal þeirra var Gary Schroen, starfsmaður leyniþjónustunnar frá 1970 til 2002.

„Við stóðum svona þrjátíu saman og horfðum á seinni flugvélina lenda á suðurturninum og allir sögðu: Þetta er Bin Laden,“ sagði Schroen í viðtali við PBS árið 2008.

John McLaughlin, aðstoðarforstjóri CIA árin 2000 til 2004, sagði leyniþjónustuna hafa verið í hefndarhug frá fyrstu mínútu. „Við vorum í stríði við Al-Kaída og þeir unnu stórsigur þennan dag,“ sagði McLaughlin.

Allir höfðu Bin Laden í huga, en það var George Tenet, forstjóri CIA, sem fyrstur kom þeim upplýsingum á flug meðal öryggisstofnana Bandaríkjanna að árásin hefði verið framkvæmd af Al-Kaída og Osama Bin Laden.

Richard A. Clarke mætti fyrir þingnefnd til að fara yfir hvernig öryggisstofnanir Bandaríkjanna brugðust þjóðinni.
Mynd/Getty Images

Slæm reynsla í Afganistan

Black hélt kynningu fyrir Bush þar sem hann að lofaði að setja „hausa á spjót“ og hefna fyrir hönd Bandaríkjanna. Bush er sagður hafa verið ánægður með aðgerðirnar, á meðan Cheney reyndi að ýta aðgerðunum frá leyniþjónustunni og að hernum, sem var undir stjórn Rumsfelds.

Herinn var hins vegar gripinn með buxurnar á hælunum og var ekki tilbúinn til að gera innrás í Afganistan. Í augum hersins, eins og Thomas Ricks blaðamaður Wall Street Journal lýsti því, var Afganistan staðurinn þangað sem heimsveldi fara til að láta niðurlægja sig, byggt á reynslu Sovétríkjanna á áttunda áratugnum.

Bush ákvað að leyfa leyniþjónustunni að hefja stríðið gegn hryðjuverkum og var herinn settur í aftursætið. Leyniþjónusta flaug til Afganistan með milljónir Bandaríkjadala í seðlum og byrjaði að kaupa hollustu hjá lénsherrum í Afganistan til að berjast gegn Al-Kaída í norðurhluta landsins.

Herinn gerði síðan innrás inn í Afganistan 7. október.

Árið 2003, eftir fjölmargar lygar um tilvist gereyðingar- og efnavopna, fengu Rumsfeld og Cheney ósk sína uppfyllta þegar Bandaríkin réðust inn í Írak.

Í dag eru tuttugu ár síðan árásin var gerð á Tvíburaturnana. Hundruð þúsunda hafa í framhaldi glatað lífi sínu í stríðum Bandaríkjanna, þar á meðal fjölmargir saklausir borgarar. Talíbanar hafa nú aftur náð völdum í Afganistan og reynsla Bandaríkjanna virðist vera svipuð reynslu Sovétríkjanna. Afganistan er landið þangað sem stórveldi fara til að láta niðurlægja sig.