Dauði sau­tján ára ung­lings­pilts í Kali­forníu, sem hefur verið rakinn til CO­VID-19 þýðir að pilturinn gæti verið eitt yngsta fórnar­lamb sjúk­dómsins í Banda­ríkjunum. New York Times greinir frá.

Í frétt miðilsins kemur fram að í fyrstu til­kynningu frá heil­brigðis­yfir­völdum vegna málsins hafi verið full­yrt fullum fetum að drengurinn hafi látist vegna CO­VID-19. Klukku­stundum síðar hafi þó verið dregið í land og sagt að enn væri verið að greina dauða stráksins.

„Þetta mál er flókið og það gæti verið önnur út­skýring á dauða hans,“ segir í til­kynningunni. Í frétt New York Times kemur fram að reynist kóróna­veiran or­saka­valdur dauða stráksins, sé um að ræða fyrsta til­fellið af dauð­daga ein­stak­lings undir lög­aldri í Banda­ríkjunum.

Haft er eftir borgar­stjóranum R. Rex Par­ris að drengurinn hafi ekki verið með neina undir­liggjandi sjúk­dóma. Hann hafi verið heil­brigður þar til hann hafi fundið fyrir öndunar­erfið­leikum. Hann hafi hlotið um­önnun á spítala en leyft að fara heim skömmu síðar, án þess að vera ski­maður fyrir veirunni.

„Hvernig geturu tekið á móti strák með öndunar­erfið­leika án þess að prófa hann?“ segir gáttaður borgar­stjóri Lan­ca­ster. Drengurinn var svo færður á annan spítala þar sem hann lést.

Alls hafa 662 manns verið greindir með vírusinn í Los Angeles sýslu. Þar hafa ellefu manns látist vegna hennar en auk drengsins létust tveir aðrir þar í gær. Um var að ræða tvær mann­eskjur á aldurs­bilinu 50 til 70 ára, bæði með undir­liggjandi sjúk­dóm.