„Þetta er ekki bara fyrir fólkið hér í húsinu, það mega allir koma hvar sem þeir búa í borginni,“ segir Matthildur Guðmundsdóttir dansáhugamaður sem í dag setur í gang dansklúbb fyrir fólk með göngugrindur í félagsmiðstöðinni í Hæðargarði 31.

„Mér datt þetta í hug vegna þess að það eru talsvert margir farnir að vera með göngugrindur,“ segir Matthildur sem hefur dansað allt sitt líf og bæði keppt í dansi og kennt öðrum listina með eiginmanni sínum Jóni Frey Þórarinssyni, sem var skólastjóri í Laugarnesskóla. Jón Freyr lést fyrir tæpum þremur árum.

„Ég á mikið af tónlist því ég og minn maður stjórnuðum dansi í Stangarhyl á vegum eldri borgara fyrir nokkrum árum,“ segir Matthildur sem segir tónlistarvalið vera frá því fyrir tíma Bítlanna.

„Ég ætla að reyna að hafa þetta svolítið skemmtilegt og hafa tónlistina þannig að hún sé mest við hæfi 80 plús og 90 plús; að það séu Haukur Morthens, Raggi Bjarna og Ingimar Eydal, tónlist sem þessi hópur hafi skemmt sér við á yngri árum, þekki og geti sungið með,“ segir Matthildur.

Fyrst danstíminn verður í dag klukkan 13 og svo áfram komandi þriðjudaga á sama tíma. Matthildur segist ekki ætla að taka laun fyrir danstímann.

„Þetta á að vera dansklúbbur og það á bara að vera skemmtilegt. Við ætlum að marsera með göngugrindurnar og svo er ekkert mál að dansa alls konar spor; valsa og ræla og sömbu og rúmbu og bara nefndu það. Við ætlum að vera með göngugrindurnar og dansa,“ segir Matthildur. „Fólk má líka koma þó að það sé ekki með göngugrindur. Það getur tekið þátt með því að halda í stólbak ef það vill styðja sig við eitthvað eða bara dansað frjálslega. Það er ekki aldurstakmark en þetta er miðað við þennan hóp sem þekkir gömlu danslögin.“

Matthildur sem er 87 ára kveðst hafa dansað alla ævi, fyrst í barnaskóla og síðan í dansskólum og hún kenndi til dæmis hjá Þjóðdansa­félaginu.

„Við hjónin tókum alltaf frá eitt kvöld í viku, þriðjudagskvöld, og dönsuðum saman því þetta var bara okkar áhugamál. Og þess vegna er það að þó að ég sé orðin þetta gömul langar mig til að dansa áfram,“ segir dansdrottningin í Hæðargarði 31.

Hjónin Matthildur Guðmundsdóttir og Jón Freyr Þórarinsson heitinn kepptu í samkvæmisdönsum og fengu mörg verðlaun.
mynd/Aðsend