Þó nokkrir stjórnmálamenn í Danmörku krefjast þess nú að rannsókn fari fram á hátterni ríkislögreglustjóra þar í landi, Thorkild Fodge vegna minkadrápanna sem fram hefur farið þar í landi. Fodge vissi að aðgerðin væri ólögleg og gaf samt grænt ljós.
Segir í frétt DR af málinu að Fodge hafi vitað sem var að aðkoma lögreglu að aðgerðunum hafi verið ólögleg. Þrátt fyrir það hafi hann ekki stöðvað aðgerðir sem hófust nokkrum dögum áður en Mogens Jensen, landbúnaðarráðherra landsins var látinn vita af málinu.
Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá þótti það mikið hneyksli að ríkisstjórnin hafi hafið minkadrápið þegar ekki var til staðar lagaheimild til þess. Neyddist Jensen til að segja af sér embætti vegna málsins.
Talsmaður Frjálslynda flokksins, sem styður ríkisstjórn Mette Frederiksen og Jafnaðarmanna, segir að flokkurinn muni beita sér fyrir því að málið verði rannsakað til hlýtar. Fodge sé ekki stætt í stóli ríkislögreglustjóra fari hann ekki eftir settum landslögum.