Danske Bank svindlaði vísvitandi á 87.000 viðskiptavinum sinum þegar hann lét þá fjárfesta í Flexinvest Free segir danska Fjármálaeftirlitið. Danske Bank hefur þegar sagt upp Jesper Nielsen sem var meðlimur í stjórn bankans og hyggst greiða viðskiptavinum sínum skaðabætur sem nema allt að 400 milljónum danskra króna, eða yfir sjö og hálfan milljarð íslenskra króna.

Forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins, Jesper Berg, segir málið vera „mjög alvarlegt.

Danske Bank ráðlagði viðskiptavinum sínum að fjárfesta í Flexinvest Free þrátt fyrir himinhá samningsgjöld og að gert væri ráð fyrir neikvæðum hagnaði í einhverjum tilvikum.

Í fréttatilkynningu fjármálaeftirlitsins segir að grundvallar forsenda reksturs á fjármálastofnun eigi að vera hagur viðskiptavina. Augljóslega hefur þetta mál og mál á öðrum sviðum undanfarin ár ekki stuðlað að trausti á fjármálakerfinu í Danmörku segir í tilkynningunni.

Fjármálaeftirlitið hefur heitið ítarlegri rannsókn á málinu og gerir ráð fyrir að ákvörðun um afleiðingu þess verði tekin fyrir lok sumarsins.

Í tilkynningu Danske Bank í dag þakkar bankinn Jesper Nielsen vel unnin störf en segir að vegna þessa máls hafi honum verið sagt upp. Einnig kemur fram að vegna rangra stjórnunarákvarðana hafi viðskiptavinir um tíma greitt of há gjöld fyrir Flexinvest Free.

Danske Bank lofar að allir viðskiptavinir sem hafi orðið fyrir áhrifum Flexinvest Free muni fá greiddar skaðabætur fyrir lok þessa árs.