Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, bað í dag fórnarlömb misnotkunar afsökunar fyrir hönd ríkisins á því sem átti sér stað á ríkisreknum barnaheimilum í Danmörku. „Vegna fortíðar okkar, nútíðar og framtíðar, vil ég horfa í augun á hverju einasta ykkar og segja það eina rétta í stöðunni. Fyrirgefið,“ sagði Mette í tilfinningaþrunginni ræðu í dag.

Að því sem kemur fram í opinberri rannsókn sem gerð var í Danmörku voru hundruð barna beitt kynferðislegu ofbeldi, lamin og byrlað lyfjum á barnaheimilum á árunum 1945 til 1976. Misnotkunin átti sér stað víðs vegar um landið. „Það sem þið hafið upplifað er eitt af myrkustu köflum í okkar sögu,“ bætti forsætisráðherrann við.

Loksins kom afsökun

Almenningur hefur um árabil kallað eftir því að ríkið taki ábyrgð á ofbeldinu sem átti sér stað á ríkisreknum barnaheimilum, þá sérstaklega í máli drengjanna sem voru á Godhavnheimilinu.

„Við höfum beðið eftir þessum degi í mörg ár, og ég hef oft velt því fyrir mér hvernig afsökunarbeiðni forsætisráðherrans myndi vera, en ég vona að forsætisráðherra muni eftir öllum þeim sem höfðu ekki orku til að koma hingað í dag,“ sagði Poul-Erik Rasmussen, talsmaður Godhavnsdrengjanna, í samtali við DR. Hann var sjálfur á Godhavnsheimilinu á árunum 1962 til 1965.

Mál fórnarlambanna rötuðu fyrst í fjölmiðla árið 2005 þegar dönsk heimildarmynd fjallaði um Godhavnsheimilið og ræddi við ótal menn um ofbeldið sem þeir höfðu upplifað á heimilinu á meðan á dvöl sinni stóð.

Forsætisráðherra faðmaði Poul-Erik, sem hefur um árabil barist fyrir afsökunarbeiðni.
Mynd/Danska forsætisráðuneytið