Listdansskóli Íslands var stofnaður í Þjóðleikhúsinu árið 1952 en lagður niður sem ríkisskóli árið 2006 þegar Listaháskólinn tók við rekstrinum..
„Tvö þúsund og sex er ákveðið að leggja niður ríkisskólann okkar, sem var Listdansskóli Íslands, til þess að gefa öðrum séns,“ segir Guðmundur Helgason, skólastjóri Listdansskóla Íslands. Dansskólinn var á þeim tíma rekinn sem bæði ríkisskóli og ehf.
„Það sem í rauninni var aldrei klárað var hvernig átti að fjármagna það. Listdansskóli Íslands var á sínum fjárlögum, gamli ríkisskólinn. Svo er þetta gefið frjálst. Ríkið greiðir með framhaldsstiginu en það átti að koma á einhverju fyrirkomulagi þar sem sveitarfélögin myndu greiða með grunnnáminu, eins og í menntakerfinu okkar almennt,“ segir Guðmundur.
Síðan eru liðin sautján ár og málið hefur lent á borði sex menntamálaráðherra án þess að vera klárað. Um 120 nemendur stunda í dag nám við skólann.
„Ég hef setið í stjórn Félags íslenskra listdansara og það er mikið talað um þetta þar. Ég hef mikið talað um þetta síðan ég tók við sem skólastjóri 2012. Í rauninni hefur samtalið ekki hafist, held ég. Mér skilst að það sé aðeins búið að opna það núna, menntamálaráðherra er að opna á þetta samtal núna við sveitarfélögin.“
Guðmundur segir sveitarfélögin ekki hafa viljað „grípa kartöfluna“ þar sem ekkert í lögum skyldi þau til að greiða með listdansnámi. „En listdansnámið sem slíkt er fullkomlega sambærilegt tónlistarnámi. Þau skilyrði sem tónlistarskólar þurftu að uppfylla til að fá styrki frá Reykjavíkurborg voru upptalin og ákveðin. Ég var að bera þetta saman við okkar starfsemi og við uppfyllum sambærileg skilyrði.“
Guðmundur segist hafa fengið fyrirspurnir þess efnis, hvers vegna listdansarar skrái sig ekki undir Íþróttasamband Íslands. „En afhverju er ekki hægt að skilgreina þetta á okkar eigin forsendum? Við erum listgrein og við erum íþrótt. Samkvæmt rannsókn sem gerð var af tryggingafélögum í Bandaríkjunum er þetta erfiðasta starf sem þú getur unnið,“ segir hann.
Samkvæmt rannsókn sem gerð var af tryggingafélögum í Bandaríkjunum er þetta erfiðasta starf sem þú getur unnið
„Þetta er erfiðara en að vinna á olíuborpalli, svo að ég nefni eitthvað kallakalla starf sem allir skilja að sé mjög erfitt. Þú þarft að hafa styrk, þú þarft að hafa samhæfingu, andlega hliðin er mjög erfið. Einbeiting og úthald. Þetta reynir á rosalega marga þætti.“
Að sögn Guðmundar hefur einnig skapast umræða um að mögulega sé undirfjármögnunin kynjamál. „Þetta er eitthvað sem ég heyri oft í kringum mig. Í rauninni hefur enginn getað sagt okkur af hverju þetta er svona. Af hverju er ekki hægt að greiða með þessu listnámi eða íþrótt eins og öðru? En svo heyrir maður svona, það eru mikið til stúlkur og konur sem hafa keyrt áfram þessa listgrein í landinu. Það eru konur sem stofna félag íslenskra listdansara fyrir ansi löngu síðan og hafa verið primus motor í þessu í gegnum árin, þetta er kvennalistgrein hér,“ segir hann.
Guðmundur Helgason var gestur í Fréttavaktinni á Hringbraut þriðjudaginn 14. mars 2023.