Októberfest hófst í gær og fer hátíðin nú fram í átjánda sinn. Rebekka Karlsdóttir, forseti Stúdentaráðs, segir mikinn spenning fyrir hátíðinni innan háskólasamfélagsins.

„Þetta ætti að vera tuttugu ára afmælishátíð núna en hún féll niður síðustu tvö ár svo við höfum beðið spennt eftir þessu,“ segir Rebekka.

Partí í Vatnsmýri

Hátíðin fer fram á háskólasvæðinu í Vatnsmýrinni, þar sem reist hafa verið tvö stór tjöld með sviðum þar sem tónlistaratriðin fara fram

„Svo erum við með Símatjaldið þar sem er aðeins öðruvísi dagskrá eins og partí-karókí og silent-diskó og svo er matartjald,“ segir Rebekka.

Síðustu ár hefur verið lítið um félagslíf innan háskólans vegna Covid og segir Rebekka Októberfest mikilvægan hlekk í því að byggja félagslífið upp að nýju.

„Það var gerð tengslakönnun fyrir og eftir Covid þar sem kannað var hversu marga vini fólk ætti þegar það kom í háskóla og hversu mörgum það kynntist fyrstu mánuðina. Í ljós kom að fólk var að kynnast mun færra fólki á þessum tíma sem faraldurinn gekk yfir,“ segir Rebekka.

„Þetta er eitthvað sem við í Stúdentaráði og háskólayfirvöld höfum haft miklar áhyggjur af og tökum því alvarlega að byggja upp þessi tengsl milli stúdenta aftur,“ segir hún. „Það er mikilvægt að kynnast fólkinu sem maður er með í námi og verður síðar kollegar manns.“

Stuð á Októberfest.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Fjölbreytt dagskrá

Á hátíðinni er boðið upp á um fjörutíu tónlistaratriði og er dagskráin afar fjölbreytt. Meðal þeirra sem koma fram eru Sigga Beinteins, Birgitta Haukdal, Floni, Friðrik Dór og Lil Curly. Á morgun er svo boðið upp á fjölskylduskemmtun milli klukkan 14 og 16 þar sem í boði verða skemmtiatriði og hoppukastali fyrir börnin.

„Það sem kjarnar háskólasamfélagið er að við getum ekki bara haft eina tegund af tónlist ef við ætlum að höfða til allra háskólanema,“ segir Rebekka. „Atriðin eru því eins ólík og fólkið í háskólasamfélaginu. Þarna getum við öll komið saman og skemmt okkur,“ bætir hún.

Hátíðin er öllum opin, ekki bara nemendum í Háskóla Íslands. Allir sem sýna stúdentakort fá afslátt af aðgöngumiða.

Spurð hvað hún sjálf sé spenntust fyrir að sjá segir Rebekka það vera Birgittu Haukdal. „Ég var með plaköt af henni í herberginu mínu og blóm í hárinu og svo sá ég hana á Októberfest 2017 eða 2018 og það var ógleymanlegt.“

„Ég held að það sé líka haldið í september í Þýskalandi en við höldum þetta talsvert fyrr en Þjóðverjarnir, það er bara út af veðrinu,“ svarar Rebekka spurð hvers vegna Októberfest fari fram í september.

„Og það er frábært að byrja skólaárið á því að sameinast í dansi í tjöldunum,“ bætir Rebekka við.