Tvenn mótmæli flóttafólks á Íslandi hafa verið skipulögð á föstudaginn. Sú fyrri verða klukkan þrjú á föstudaginn fyrir framan dómsmálaráðuneytið þar sem reynt verður að ná athygli Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, dómsmálaráðherra. Hin síðari verða í formi dansleiks, að því sem fram kemur í viðburði mótmælanna á Facebook.

„Síðastliðinn mánuð hefur flóttafólk á Íslandi tekið þann djarfa slag að standa uppi í hárinu á yfirvöldum sem hafa allt að segja um líf þeirra. Meðal annars hafa þau birst í fjölmiðlum og fjallað um galla hælisleitendakerfisins á Íslandi, auk þess að hafa staðið fyrir fjölda friðsælla mótmæla. Beiðni þeirra er einföld. Þau vilja fá röð samráðsfunda með yfirvöldum þar sem kröfur þeirra fimm verða ræddar,“ segir á Facebok. Þá kemur fram að einu svörin sem gefin hafa verið hafi verið kylfur og piparúði lögreglunnar og fundur með fulltrúa úr forsætisráðuneytinu þar sem engu var lofað.

„Komið, dansið og hafið hátt á Austurvelli á föstudaginn til að vekja athygli á málstaðnum og sýna að við erum hvergi nærri því að gefast upp, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir yfirvalda til að hundsa kröfur flóttafólks.“

Mótmælendur vilja ná tali af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra.

Mótmæli flóttafólks hófust þrettánda febrúar síðastliðinn. Síðan þá hafa verið haldin fjöldi annarra mótmæla, þar sem flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd krefjast úrlausn sinna mála og bættum aðbúnaði. Lengstu mótmælin voru tæp vika þar sem mótmælendur gistu í tjaldi, eða á úti fyrir berum himni á Austurvelli til þess að reyna að ná athygli ráðamanna.

Kröfur mótmælenda eru fimm: Ekki fleiri brottvísanir, efnismeðferð fyrir alla, rétturinn til þess að vinna á meðan umsókn um alþjóðlega vernd stendur, jafn aðgangur að heilbrigðiskerfi og lokun búsetuúrræðis Útlendingastofnunar á Ásbrú, sem íbúar segja einangrandi og hafa slæm áhrif á andlega heilsu. Heimsóknir þangað eru til að mynda ekki leyfðar. Útlendingastofnun birti fyrir stuttu tilkynningu þar sem kröfum mótmælenda var svarað. Þar kom meðal annars fram að enginn þurfi að dvelja í búsetuúrræðum án vilja.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd á þingpöllum í síðustu viku.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Mótmælin hafa að mestu farið fram á Austurvelli, en einnig var boðað til mótmæla fyrir framan Útlendingastofnun fyrr í mánuðinum. Fyrir nokkrum vikum beitti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu piparúða gegn mótmælendum og var það í fyrsta skipti í fjölda ára sem gripið er til þess úrræðis. Sögðu forsvarsmenn lögreglunnar að lögreglumennirnir, sem þar voru staddir, hefðu talið að mótmælendur hafi ætlað að kveikja eld.

Var lögreglan í kjölfarið gagnrýnd fyrir harðræði og fordóma, en svaraði fyrir athæfið á fundi með allsherjar- og menntamálanefnd í síðustu viku. Þar sagði Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjón hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, valdbeitingu aldrei vera fallega.