Utanríkisráðuneytið hefur krafist þess Danir upplýsi undanbragðalaust hvort þær njósnir sem Danir hafa aðstoðað Bandaríkjamenn við, hafi beinst að íslenskum hagsmunum, stjórnmálamönnum, embættismönnum, stofnunum, fyrirtækjum eða einstaklingum hér á landi. Þetta kom fram í svari Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í svari við fyrirspurn Kolbeins Óttarssonar Proppé, í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrir stundu.

Kolbeinn vakti máls á uppljóstrunum fjölmiðla um að Bandaríkjamenn hafi notið aðstoðar leyniþjónustu danska hersins, njósnað um háttsettra einstaklinga í nokkrum löndum, Þýskalandi, Svíþjóð, Frakklandi og Noregi. Danskir fjarskiptakaplar hafi verið notaðir til að hlera símtöl og fylgjast með rafrænum samskiptum.

Kolbeinn spurði ráðherra hvort hann teldi ástæðu til að hafa áhyggjur af því að þetta gæti komið upp hér á landi og hvort Bandaríkjamenn séu líka að njósna um Íslendinga.

Guðlaugur sagði embættismenn í ráðuneytinu hafa átt samtöl við staðgengil sendiherra Danmerkur hér á landi sem og við fulltrúa danska varnarmálaráðuneytisins þar sem bæði vonbrigðum og áhyggjum vegna málsins hafi verið komið á framfæri.

„Í sömu samtölum höfum við krafist upplýsinga um það hvort sú starfsemi sem þarna er lýst hafi snúist gegn íslenskum hagsmunum, íslenskum stjórnmálamönnum, stofnunum eða fyrirtækjum,“ sagði Guðlaugur í svari sínu og rifjaði upp þegar mál þessi komust í hámæli síðasta sumar þegar upplýst var um að bandarísk stjórnvöld höfðu meðal annars mögulega nýtt náið samstarf ríkjanna til njósna um danska ríkisborgara. Þá hafi komið fram frekari ásakanir um að bandarísk stjórnvöld hafi njósnað um lykilráðuneyti og einkafyrirtæki í Danmörku. Það hafi valdið áhyggjum hérlendis og þeim hafi verið komið á framfæri við okkar helstu bandalags- og nágrannaþjóð, Dani.

Málið geti grafið undan trausti bandalagsríkja

„Nú virðist sem þær áhyggjur hafi verið á rökum reistar og að samstarf dönsku leyniþjónustunnar og Þjóðaröryggisstofnunnar Bandaríkjanna hafa rist dýpra en áður var talið og meðal annars falið í sér njósnir um háttsettra stjórnmálamenn, embættismenn, stofnanir og fyrirtæki í nánum bandalagsríkjum Danmerkur,“ sagði Guðlaugur og bætti við:

„Traust og trúnaður eru lykilþættir í samskiptum vinaríkja. Mál á borð við þetta, getað grafið undan slíku trausti. Það er nokkuð sem við þurfum ekki á að halda á tímum fjölþátta ógna. Því miður eru ríki sem hafa beinlínis hag af því að grafa undan trausti og samstöðu vina- og bandalagsríkja á Vesturlöndum. Við höfum krafist þess að spilin væru lögð á borðið. Það er grundvallaratriði ef okkur á auðnast að takast á við þessa áskorun að byggja upp nauðsynlegt samstarf til framtíðar.“