Hin danska Britta Nielsen var í gær dæmd í undirrétti í Kaupmannahöfn til sex og hálfs árs fangelsisvistar fyrir að hafa dregið sér samtals 117 milljónir danskar krónur í starfi sínu hjá félagsmálayfirvöldum.

Danir virðast margir telja dóminn yfir Nielsen of vægan, ekki síst í ljósi þess að brot hennar náðu yfir aldarfjórðung, eða frá árinu 1993 til 2018, og að upphæðin er gríðarleg, eða jafnvirði um 2.170 milljóna íslenskra króna.

Fréttavefur Danmarks Radio bauð í kjölfar dómsins í gær lesendum að senda spurningar um málið til Trine Maria Ilsøe, sem skrifar fréttir af dómsmálum. Samkvæmt dóminum á að gera 113 milljón danskar krónur upptækar hjá Nielsen.

Einn lesandinn spyr hvort það endurspegli að enn sé svo mikið af þýfinu í fórum Nielsen en fréttamaðurinn segir svo ekki vera. „Eins og staðan er nú er upphæðin sem ríkið hefur fengið til baka miklu lægri,“ svarar Ilsøe.

Annar spyr hversu lengi megi búast við að Nielsen sitji í fangelsi. Hún er í dag 65 ára og ætlar sjálf ekki að áfrýja dóminum en ákæruvaldið hefur enn tvær vikur til að áfrýja fyrir sitt leyti. Ilsøe segir að venjulega sé fólk látið laust eftir að hafa afplánað tvo þriðju af dóminum. „Þannig að með dálitlum hugarreikningi verður Britta Nielsen látin laus eftir fjögur ár og tvo mánuði,“ útskýrir fréttaritari DR í dómsmálum.