Yfirvöld í Danmörku hafa ákveðið að bíða áfram með bóluefni Janssen á meðan verið er að rannsaka aukaverkanir sem fela í sér myndun blóðtappa en að því er kemur fram í frétt á vef dönsku heilbrigðisstofnunarinnar, SST, verður ákvörðun um bóluefnið líklegast tekin í næstu viku.

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í gær að tengsl væru á milli bólusetningar með bóluefni Janssen og sjaldgæfra blóðtappa en að ávinningurinn af bólusetningu væri áfram meiri en áhættan. Um er að ræða sambærilegar niðurstöður og með bóluefni AstraZeneca en aukaverkanir virðast þó sjaldgæfari eftir bólusetningu með Janssen.

„Í næstu viku mun danska heilbrigðisstofnunin ræða um mat Lyfjastofnunar Evrópu við sérfræðingateymið sem var skipað þegar hlé var gert á notkun bóluefnis AstraZeneca. Þeirra ráðleggingar verða ómetanlegar fyrir okkur meðan við ákveðum um hvort bóluefni Janssen verði notað í Danmörku,“ segir Søren Brostrøm, landlæknir Danmerkur.

Heilbrigðisyfirvöld í Danmörku tilkynntu í síðustu viku að notkun bóluefnis AstraZeneca yrði hætt fyrir fullt og allt vegna aukaverkana og er mögulegt að það verði einnig gert með bóluefni Janssen. Ef svo fer mun það setja bóluefnaáætlanir í Danmörku í uppnám en gert er ráð fyrir 8,2 milljón skömmtum í heildina af bóluefni Janssen.