Framboð og frambjóðendur til sveitarstjórna í kosningum sem fram fara í Danmörku á næsta ári eru þegar farnir að undirbúa sig. Venju samkvæmt mega framboðin strax 23. október byrja að hengja auglýsingaplaköt upp í tré, ljósastaura og allt mögulegt af því tagi.

Nokkrir frambjóðendur munu að sögn Danmarks Radio þegar hafa ákveðið að sleppa auglýsingaplak­ötum í þetta skipti, meðal annars af umhverfisástæðum. Þetta hyggist þeir gera þrátt fyrir að rannsóknir hafi áður sýnt að það muni kosta þá mörg atkvæði.

„Við þurfum að stöðva þetta kapphlaup,“ hefur DR eftir Michael Melchert, sem er einn frambjóðenda Frjálslynda bandalagsins í Albertslund.

Jonas Sylvester Kaspersen, sem býður fram fyrir Lókalistann á Lollandi, ætlaði að sleppa plakötunum alveg en endaði á því að fá sex stykki til að geta verið með. Til að bæta sér upp hversu fá plakötin eru hyggst hann festa eitt þeirra á bakið á sér og hjóla með það hvert sem hann fer.