Heil­brigðis­ráð­herra Dan­merkur, Magnus Heunicke, hefur lýst því yfir að Danir séu til­búnir til að býtta bólu­efnis­birgðum sínum af AstraZene­ca fyrir „öruggara“ bólu­efni og vísaði þar til bólu­efna Pfizer eða Moderna. Að hans sögn eru ýmis lönd á­huga­söm um skipti á bólu­efnum.

Heil­brigðis­yfir­völd í Dan­mörku til­kynntu í síðustu viku að notkun bólu­efnisins yrði al­farið hætt vegna sjald­gæfra auka­verkana. Að því er kemur fram í frétt NRK um málið til­kynnti Heunicke að mögu­leg skipti væru til skoðunar í gær en ekki liggur fyrir hvaða lönd Danir líta nú til fyrir slík skipti.

270 þúsund skammtar á lager

Bólu­efni AstraZene­ca fékk skil­yrt markaðs­leyfi í Evrópu í lok janúar en í mars á­kváðu flestar þjóðir að bíða með bólu­efnið þar sem til­kynnt hafði verið um blóð­tappa í kjöl­far bólu­setningar. Lyfja­stofnun Evrópu mælti þó á­fram með bólu­efninu og hafa nú flestar þjóðir byrjað að nota bólu­efnið á ný.

Um það bil 150 þúsund Danir fengu sinn fyrsta skammt af bólu­efni AstraZene­ca áður en notkun þess var hætt en um þrír mánuðir líða milli skammta frá AstraZene­ca. Um það bil 270 þúsund skammtar eru nú ó­notaðir í Dan­mörku og er von á 325 þúsund til við­bótar í maí.

Óvissa um bóluefni Janssen

Það er þó ekki að­eins bólu­efni AstraZene­ca sem er til um­ræðu þessa dagana en gert er ráð fyrir að Lyfja­stofnun Evrópu muni komast að niður­stöðu varðandi bólu­efni Jans­sen, sem er þróað á sama hátt og bólu­efni AstraZene­ca og hefur einnig verið sett á bið.

Að því er kemur fram í frétt DR um málið verður grannt fylgst með stöðu mála í dag en ef Danir á­kveða að hætta al­farið að nota bólu­efni Jans­sen setur það bólu­efna­á­ætlanir þar í landi í upp­nám. Gert er ráð fyrir um það bil 8,2 milljón skömmtum af bólu­efninu í á­ætluninni.