Danska heilbrigðisstofnunin (d. Sundhedsstyrelsen) áætlar að allir íbúar Danmerkur, sem hafa aldur til, verði búnir að ljúka bólusetningu gegn COVID-19 þann 12. september en um er að ræða um það bil tveggja vikna seinkun frá fyrri áætlun. Þetta kemur fram í frétt DR um málið.

Heilbrigðisráðherra Danmerkur, Magnus Heunicke, hafði áður staðfest að seinkun yrði á bólusetningu vegna framleiðslutafa hjá lyfjafyrirtækjum en um það bil 1,5 milljón færri skammtar munu berast í júní, júlí og ágúst þar í landi. Í september koma þó 880 þúsund skammtar til viðbótar.

Staðan vegna faraldursins stöðug

Faraldurinn virðist nú vera heldur stöðugur í Danmörku en nýgengi smita hefur verið 1.1 í fimm vikur í röð. Að sögn Heunicke má þakka þeim árangri að vel hefur gengið að rekja og greina smit, bólusetja, og beita sóttvarnaraðgerðum til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Nokkur hópsmit hafa þó komið upp síðastliðnar vikur, til að mynda höfðu að minnsta kosti 85 einstaklingar greinst með veiruna í gær eftir fögnuð stuðningsmanna fótboltaklúbbsins Bröndby í Kaupmannahöfn þann 24. maí. Nýjustu tölur virðast þó benda til þess að útbreiðslan hafi verið takmörkuð, að sögn dönsku sjúklingaöryggisstofnunarinnar (d. Styrelsen for Patiensikkerhed).

Þá má einnig rekja töluverðan fjölda smita í Álaborg til Jomfru Ane götunnar en á götunni má finna marga fjölfarna veitingastaði. Af þeim 148 smitum sem greindust í Álaborg frá 15. til 22. maí voru 86 smit hjá einstaklingum sem höfðu verið á staðnum eða voru í nánum tengslum við aðra sem voru á staðnum.

Að meðaltali eru nú 989 einstaklingar sem greinast daglega í Danmörku en frá upphafi faraldursins hafa rúmlega 282 þúsund tilfelli smits verið staðfest þar í landi og 2.516 látist vegna COVID-19.

25 til 39 ára fá síðust bóluefni

Samkvæmt bólusetningaráætlun danskra yfirvalda stendur til að 75 prósent verði bólusett fyrir lok júlí. Engar breytingar voru á áætlun bólusetninga hjá einstaklingum 50 ára og eldri en eins til tveggja vikna breyting er á bólusetningum yngri aldurshópa.

Þeir síðustu sem fá bólusetningu verða einstaklingar á aldrinum 25 til 39 ára og er bólusetning þeirra áætluð aðra vikuna í september. Einstaklingar á aldrinum 16-19 ára og 45 til 49 ára verða bólusettir í lok júlí, á meðan einstaklingar 20 til 24 ára og 40 til 44 ára verða bólusettir í ágúst.

Tæplega 3,4 milljón skammtar af bóluefni gegn COVID-19 hafa verið gefnir í Danmörku en ef miðað er við að hver manneskja þurfi tvo skammta til að ljúka bólusetningu hafa Danir nú bólusett rúmlega 29 prósent þjóðarinnar. Danir hafa hætt að nota bóluefni Janssen og AstraZeneca vegna aukaverkanna og því flestir bólusettir með bóluefni Moderna eða Pfizer.