Dönsk yfir­völd telja að skemmdar­verk hafi verið unnin á gas­leiðslum Nord Stream 1 og 2, sem liggja um Eystra­saltið og flytja náttúru­legt gas frá Rúss­landi til Evrópu. Þetta sagði Mette Frederik­sen, for­sætis­ráð­herra Dan­merkur á blaða­manna­fundi á sjötta tímanum í kvöld.

Í gær upplýsti danska siglinga­mála­stofnunin frá hættu­legum gas­leka við dönsku eyjuna Borgundar­hólm og kom í ljós leki frá Nord Stream 2. Í dag greindust svo seinni tveir gas­lekarnir á Nord Stream 1.

Frederik­sen sagði götin á gas­leiðslunum bera merki um aug­ljós skemmdar­verk, en mæli­stöðvar í Dan­mörku og Sví­þjóð námu sprengingar á svæðinu um svipað leyti og lekin kom í ljós.

Varnar­mála­ráð­herra Dan­merkur, Mor­ten Bødskov, sagði að sam­kvæmt upp­lýsingum frá leyni­þjónustunni að Dan­mörk stafi engin hernaðar­leg ógn af verknaðinum. Hann segir að við­búnaður við Borgund­hólm og Christiansø verði aukin, en norska varnar­liðið hefur verið með varð­skip á svæðinu undan­farna daga.

Dönsk yfir­völd segjast munu upp­lýsa Rússa um málið, en Dmitri Peskov, tals­maður rúss­neskra stjórn­valda, sagði að ekki væri hægt að úti­loka hvort um skemmdar­verk hafi verið að ræða.

Myndskeið hefur nú verið birt á heimasíðu danska hersins, þar sem má sjá hvernig gasið sem lekur úr gasleiðslu Nord Stream kemur upp á yfirborð sjávar. Myndskeiðið er tekið úr þyrlu norska hersins.

Á sjöunda tímanum hélt Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, blaðamannafund vegna málsins. Hún sagði tvær sprengingar hafi komið lekunum þremur af stað. Einn þeirra sé innan efnahagslögsögu Svíþjóðar.

„Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að líklega er um vísvitandi verknað að ræða, svo líklega er þetta skemmdarverk,“ sagði Andersson, og bætti við að ríkisstjórn hennar líti verknaðinn mjög alvarlegum augum.

Spurð segist Andersson ekki telja að þetta sé árás á Svíþjóð, en að öðru leyti vildi hún ekki tjá sig um hver ástæðan fyrir skemmdarverkunum gæti mögulega verið, né hver gæti staðið að baki þeim.

Utanríkisráðherra Svíþjóðar, Ann Linde, var einnig viðstödd fundinn. Hún sagði að sænsk stjórnvöld hafi haft samband við rússnesk yfirvöld vegna málsins.