Vísbendingar eru um að venjuleg gleraugu geti hjálpað fólki að verjast kórónaveirusmiti. Hefja á rannsókn á þessu í Danmörku að sögn Danmarks Radio.

Talið er að gleraugun verji þá sem þau bera gegn dropum með kórónveiru sem berast í lofti. Segir Danmarks Radio frá könnun í Bretlandi sem bendi til þess að þeir sem beri gleraugu séu 23 prósent betur varðir gegn smiti en þeir sem eru án gleraugna. Og þetta ætla Danir nú að rannsaka betur.

„Það er tími til kominn,“ segir Thomas Benfield fra Amager-Hvidovre sjúkrahúsinu sem er einn vísindamannanna sem standa að rannsókninni.

„Það hafa um skeið verið vísbendingar um að kórónavírus smitist einnig í gegn um augun og þess vegna er mikilvægt að varpa ljósi á það hvort við erum að vernda okkur á besta mögulega hátt,“ segir Benfield við Danmarks Radio. Það sé ekki nýtt að vírusar geti smitast í gegn um op á slímhúð augnanna.

„Ég á bágt með að trúa að Covid-19 smitist ekki líka í gegn um augun en við ætlum að rannsaka og kortleggja hveru mörg smit berast þannig,“ segir Benfield áfram. Sé það verulegur hluti þurfi að taka tillit til þess við smitvarnir.