Rannsókn heldur áfram á ákvörðun danskra stjórnvalda um að aflífa 17 milljónir minka, en í gær voru Kent Harnisch, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneyti Dana, Camilla Marta Giordano, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, og Johan Kristian Legarth, ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins, yfirheyrð um aðild sína að málinu.

Enn hefur ekki tekist að fá á hreint hver það var sem ákvað að aflífa skyldi alla minka í Danmörku eftir að Covid-19 smit hjá einstaklingi var rekið til minka. Iðnaðarmálaráðherra, landbúnaðarráðherra og Legarth, hafa allir bent á heilbrigðisráðuneyti Danmerkur. Fregnirnar um að smit hefði borist á milli minka og manna vöktu mikinn óhug í Danmörku og í öðrum löndum, en ákvörðun danskra stjórnvalda hefur dregið dilk á eftir sér og er sérstök rannsóknarnefnd með málið til skoðunar.