Danir hafa blandað sér inn í viðræður Íslendinga við lyfjafyrirtækið Pfizer um að rannsaka áhrif bóluefnis á heila þjóð. Hugmyndin var að Íslendingar fengju þá hratt og vel viðbótarbóluefni. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hafa verið í samtali við Pfizer um þetta.

„Þeir eru að öllum líkindum að eyðileggja þetta fyrir okkur,“ segir Kári.

Rótin að þessu sé trúnaðarbrestur umboðsmanns Pfizer í Skandinavíu, danskrar konu sem Kári segir heita Mette. „Hún var á fundinum sem við áttum við vísindamenn Pfizer.“

Kári segist hafa fengið skilaboð tveimur dögum eftir fundinn frá yfirmanni sóttvarnastofnunar Danmerkur, Statens Serum Inst­itut, um að Danir hefðu verið í viðræðum við Pfizer. „Hann sagði að Mette hefði sagt þeim frá viðræðunum og hann ætlaði að reyna að sjá til þess að Danir fengju að vera með,“ segir Kári.

Að Íslendingar og Danir geti verið saman í þessu er fráleitt að mati Kára. Ísland hafi sérstöðu og hægt væri að vinna góða rannsókn hér á landi.

„Mette hafði ekki heimild til að segja frá þessu, hún kjaftaði frá, og þeir ætla að reyna að lauma sér inn í þetta á einhvern máta sem ekki er hægt.“

Aðspurður um hvar ferlið standi núna segist Kári ekki vita það. Hann býst þó við að heyra frá Pfizer í fyrri hluta vikunnar.