Á­hugi Donald Trump, Banda­ríkja­for­seta á Græn­landi hefur vakið mikinn styr í Dan­mörku í dag en allir helstu fjöl­miðlar landsins hafa fjallað um málið og rætt það meðal annars við sér­fræðinga sem og helstu stjórn­mála­menn landsins.

Trump er sagður af heimildar­mönnum banda­ríska miðilsins Wall Street Journal hafa marg­sinnis lýst yfir á­huga á því að koma höndum yfir Græn­land og meðal annars ráð­fært sig við sína helstu ráð­gjafa. Græn­land sé að verða æ mikil­vægara fyrir Banda­ríkja­menn land­fræði­lega séð.

Þannig hefur Lars Lökke Rasmus­sen, formaður Venstre og fyrrverandi forsætisráðherra landsins, tjáð sig um málið á Twitter síðu sinni og segir hann að þetta hljóti að vera furðu­lega tíma­sett apríl­gabb.

Søren Esper­sen, for­svars­maður Danska þjóðar­flokksins í utan­ríkis­málum segir að ef for­setinn sé að vinna að þessu, sé það endan­leg stað­festing á því að hann hafi misst vitið.

Þá hefur danski miðillinn Jyllands Posten eftir Henrik Ø. Breiten­bauch, sér­fræðingi í her-og varnar­málum við Kaup­manna­hafnar­há­skóla að hug­myndin sé gjör­sam­lega fá­rán­leg. Hann segir að sá tími þar sem það var á­sættan­legt að lönd gengu kaupum og sölum sé löngu liðinn.