Danska hönnunarfyrirtækið Ferm living segir líkindi Mínútustjakans frá íslenska hönnunarstúdíóinu Fléttu og Dito kertastjaka frá Ferm living helbera tilviljun.

Fréttablaðið setti sig í samband við Ferm living í gær, eftir að ásakanir á hendur fyrirtækinu birtust á Instagram og Facebook síðu íslenska hönnunarfyrirtækisins Fléttu.

„Jæja elsku vinir, við vildum deila með ykkur að stórt danskt fyrirtæki virðist hafa tekið Mínútustjakana okkar og gert að "sínum". “ er skrifað á Facebook-síðu Fléttu. „Þetta er ferm LIVING sem er meðal annars selt í mörgum verslunum hérlendis í stórum stíl. Við viljum því benda ykkur á forðast þessa kertastjaka ef eða þegar þeir lenda á hillum verslana hérlendis.“

Í Facebook-færslunni segjast fulltrúar Fléttu hafa fengið mörg skilaboð frá öðrum hönnuðum sem hafi lent í sambærilegum hugverkastuldi.

Þá virðist fyrirtækið ekki sjá marga möguleika í stöðunni, nema að vekja athygli á málinu. „Það virðist ekki vera mikið hægt að gera í þessu annað en að vekja athygli á starfsháttum fyrirtækisins sem nýtur gífurlegra vinsælda.“

Í framhaldi af símtali við Poul Erichsen, fjármálastjóra Fléttu í gær, barst blaðinu svar frá fjölmiðlafulltrúa fyrirtækisins Malene Wallin Birkrem.

„Við höfum skoðað Instagram færsluna varðandi meint brot á réttindum Studio Fléttu á Mínútu kertastjakanum og viljum koma með opinbert svar,“ segir Malene.

Sorgmædd að fá þessar ásakanir

„Við erum ótrúlega sorgmædd að fá þessar ásakanir. Við stöndum dyggan vörð um hugverkarétt okkar hönnuða og það er grundvallaratriði í ferm LIVING að skerða ekki réttindi annarra. Við leggjum gríðarlega vinnu í okkar hönnun, þar á meðal eru umfangsmiklar og ítarlegar rannsóknir á viðkomandi mörkuðum og hvers kyns sambærilegum vörum áður en ný hönnun er sett á markað til að tryggja að við séum ekki að brjóta á hugverkaréttindum þriðja aðila. Við höfðum enga þekkingu á Minute hönnuninni fyrir þróun Dito kertastjakans okkar og þetta er í fyrsta skipti sem við sjáum Minute kertastjakann.“

Við höfðum enga þekkingu á Minute hönnuninni fyrir þróun Dito kertastjakans okkar og þetta er í fyrsta skipti sem við sjáum Minute kertastjakann

Þá fullyrðir Malene að Dito kertastjakinn í einfaldri og tvöfaldri útgáfu sé kominn til af „sjálfstæðri sköpun og ítarlegu hönnunarferli. Dito vörurnar hófust með stöku Dito kertastjaka, sem var handgerður af hönnunarstjóranum okkar. Dito Candleholder Single var búið til á viðburði á vegum ferm LIVING þar sem hönnuðirnir unnu með leir. Dito kertastjakinn var innblásinn af hinum fræga, klassíska kertastjaka sem kallast „kammerstage“. Þegar leirinn var gróflega mótaður í formi kertastjaka, hafði hönnuðurinn þá hugmynd að „ófullkomið“ yfirborðið myndi skila sér í frábærri hönnun, og þannig er Dito kertastjakinn afleiðing af hönnunarferli þar sem „ófullkominn“ og einstakur leirskúlptúr varð fullkominn,“ segir hún.

„Dito Candleholder Double var hér eftir þróaður sem hliðarvara, sem sótti innblástur í forna, tveggja arma kertastjaka. Þessar tvær vörur voru settar á markað í litnum Dark Brown sem hluti af AW21 safninu okkar, með steinleir og gljáa sem við höfum áður notað í Berg keramikskúlptúrnum okkar, sem kom á markað árið 2020,“ segir Malene.

Fyrir SS22 var indigo blár liturinn þekkti tískuliturinn, eins og sést einnig í tísku, og við ákváðum að setja hann á markað með fjölmörgum vörum í safninu okkar, þar á meðal Dito kertastjakann.

„Fyrir SS22 var indigo blái liturinn afgerandi tískulitur, eins og sést vel annars staðar í tísku, og við ákváðum að setja hann á markað með fjölmörgum vörum í safninu okkar, þar á meðal Dito kertastjakanum. Indigo blái liturinn hefur verið notaður í nokkrum mismunandi vöruflokkum og liturinn var því ekki sérstaklega valinn fyrir Dito kertastjakann heldur frekar afrakstur hönnunarþróunar.

Við erum sorgmædd yfir því að Studio Flétta telji hafa verið brotið á hugverkarétti sínum af okkar hálfu og á meðan við skiljum fullkomlega vilja þeirra til að vernda hugverkarétt sinn, teljum við að hönnun okkar sé einstök og afleiðing af sjálfstæðri sköpun og nægilega frábrugðin Mínútustjakanum. Við erum alltaf opin fyrir samtali og óskum þess að Studio Flétta hefði haft beint samband við okkur. Við höfum nú haft samband við þau vegna málsins.“