Frá og með næsta föstu­degi, 15. októ­ber, ætla Danir að af­létta öllum tak­mörkunum á landa­mærum sínum auk þess sem utan­ríkis­ráðu­neyti þeirra ætlar að hætta að gefa út lita­kóðaðar leið­beiningar um önnur lönd. Þetta var á­kveðið á danska þinginu í gær­kvöldi.

Í um­fjöllun danska miðilsins DR kemur fram að lita­kóðunin hefur á­kvarðað hvaða reglur gilda um skimun, sótt­kví og ein­angrun fyrir og eftir brott­för.

„Þetta er mjög góður dagur fyrir Dani sem vilja ferðast aftur,“ sagði Jeppe Kofod, utan­ríkis­ráð­herra Dan­merkur, þegar þetta hafði verið á­kveðið.

Ferða­leið­beiningar utan­ríkis­ráðu­neytisins í Dan­mörku munu nú, eins og áður, að­eins inni­halda upp­lýsingar um öryggis­stöðu landsins, það er hvort það eru átök, stríð eða hætta á hryðju­verkum í ríkinu eða landinu sem erum ræðir.

Kofod sagði að nú væri það á á­byrgð þeirra sem ferðast að kynna sér stöðuna í hverju landi fyrir sig og tak­markanir sem þar geta enn verið í gildi og nefndi að það væri sér­stak­lega mikil­vægt fyrir þau sem ekki eru bólu­sett og er þeim beint á að kynna sér stöðu sína á vef­síðunni cor­ona­smitte.dk.

Utanríkisráðherra Dana sagði að þetta væri góður dagur fyrir ferðaglaða Dani.
Fréttablaðið/EPA

Rauðmerkja ný hættuleg afbrigði

Undan­tekningin á þessari reglu verður þó ef að það kemur upp nýtt af­brigði kórónu­veirunnar sem talið er sér­stak­lega hættu­legt og þá verður landið rauð­merkt í ferða­leið­beiningum utan­ríkis­ráðu­neytisins.

Sam­komu­lag þingsins þýðir að það verða, frá 25. Októ­ber, einnig færri tak­markanir fyrir þau sem ferðast til landsins og verður helst beint að þeim sem ekki hafa verið bólu­sett eða hafa ekki smitast áður af veirunni.

Allir sem búa innan Evrópu­sam­bandsins og Schen­gen, sem eru bólu­sett eða hafa smitast af Co­vid munu geta ferðast án tak­markanna innan Dan­merkur frá þeim tíma. Fyrir þau sem ekki falla undir þetta verður gerð krafa um að fara í skimun ekki seinna en sólar­hring eftir komu til landsins. Það gildir líka um danska ríkis­borgara og þau sem eru með fasta bú­setu þar.

Hægt er að kynna sér þetta nánar hér.