Landlæknisembættið í Danmörku hefur tekið ákvörðun um hætta að bólusetja tímabundið með bóluefni AstraZeneca.

Ákvöðrunin var tekin vegna fjölda alvarlega tilkynninga um aukaverkanir tengdar blóðtappa. Eitt tilvik varðar dauðsfall.

Danska ríkisútvarpið DR greinir frá þessu en Landlæknisembættið sendi frá sér tilkynningu í morgun.

Embættið leggur áherslu á að ekki er búið að staðfesta hvort það séu orsakatengsl milli blóðatappa og bóluefnis AstraZeneca en það sé nú til rannsóknar. Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra greinir einnig frá því á Twitter.

Hætt verður að bólusetja með efninu í minnst tvær vikur.

Søren Brostrøm, landlæknir Danmerkur sagði í fréttatilkynningu í morgun að bregðast verði við slíkum alvarlegum tilkynningum áður en hægt verði að halda áfram að bólusetja með Astra Zeneca. Ákvöðrunin sé erfið enda þurfi landið á því að halda að hægt sé að bólusetja sem flesta fljótt og örugglega.

„Bæði Landlæknisembættið og Lyfjastofnun Danmerkur verða að bregðast alvarlega við tilkynningum um aukaverkanir, bæði þeim sem berast hér í Danmörku og í öðrum Evrópulöndum," segir Brostrøm.

Tæplega níutíu þúsund Danir hafa nú þegar verið bólusettir með efninu. Þar af hafa 9.269 alvarleg tilfelli verið tilkynnt til Lyfjastofnun Danmerkur.

Nokkur önnur lönd hafa einnig hætt að nota AstraZeneca bóluefnið, þar á meðal Eistland, Lettland, Lúxemborg og Litháen, meðan málið er til rannsóknar hjá Lyfjastofnun Evrópu.