Frá og með miðnætti verður landamærum Svíþjóðar lokað fyrir Dönum. Þetta tilkynnti innanríkisráðherra Svíþjóðar, Mikael Damberg, á blaðamannafundi síðdegis í dag. Danska ríkisútvarpið DR greinir frá.

Stjórnvöld í Svíþjóð hafa gripið til þessara aðgerða þar sem að hið nýja afribrigði kórónuveirunnar er sagt smitast mun hraðar á milli manna en önnur afbrigði. Nokkur afbrigði nýju veirunnar hafa greinst í Danmörku. Þá hafa Svíar einnig lokað á heimsóknir frá Bretlandi, rétt eins og fjöldi Evrópuríkja gerði í gær og í dag vegna nýja afbrigðisins. Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in hef­ur hvatt Evr­ópu­lönd til að grípa til harðra aðgerða vegna af­brigðis­ins, sem þegar sé farið að dreifa sér til annarra landa, þar á meðal Hollands og Ástralíu.

Nýjum smitum kórónuveirunnar hefur fjölgað ört síðustu daga í Danmörku og hefur meðal annars verið gripið til þeirra ráðstafana að loka stórum verslunum yfir jólin. Sænsk yfirvöld óttuðust að Danir myndu þá flykkjast yfir til Svíþjóðar til að kaupa jólagjafir, meðal annars til Malmø sem er aðeins um fjörutíu mínútna lestaferð frá Kaupmannahöfn.

„Við höfum ákveðið að loka landamærunum fyrir Dönum til að vernda heilbrigðisstarfsmenn okkar sem neyðast til að eyða jólum og áramótum á sjúkrahúsum víðsvegar í Svíþjóð," sagði innanríkisráðherrann í dag. Aðgangsbannið nær þó ekki til sænskra ríkisborgara eða Dana sem eru búsettir eða starfa í Svíþjóð.