Flestar þjóðir sem stöðvuðu tíma­bundið notkun bólu­efnis AstraZene­ca vegna mögu­legra tengsla milli bólu­setningar og myndun blóð­tappa fyrr í mánuðinum hafa nú byrjað að bólu­setja á nýjan leik en Danir hafa þó gefið það út að þau muni bíða með bólu­setningar fram til 15. apríl.

Lyfja­stofnun Evrópu gaf það út í síðustu viku að bólu­efnið væri öruggt þrátt fyrir að ekki væri hægt að úti­loka or­saka­sam­band milli bólu­setningar og myndun blóð­tappa. Dönsk, norsk, sænsk og ís­lensk yfir­völd gáfu það út í kjöl­farið að þau myndu bíða ör­lítið lengur til að fara yfir gögnin.

Søren Brostrøm, land­læknir Dan­merkur, greindi frá því á blaða­manna­fundi í dag að á­kvörðunin um að bíða á­fram með bólu­setningar hafi verið tekin svo þau gætu metið gögnin um mögu­legar auka­verkanir enn frekar. Þá þurfi að skera úr um hvort á­kveðnir ein­staklingar séu í sér­stakri hættu.

Norðmenn enn eftir að ákveða sig

Að því er kemur fram í frétt NRK um málið hafa Svíar á­kveðið að hefja bólu­setningar á ný en þá að­eins meðal ein­stak­linga sem eru 65 ára eða eldri þar sem rann­sóknir benda til að eldri ein­staklingar fái minni auka­verkanir en yngri ein­staklingar.

Gripið var til sam­bæri­legra að­gerða hér á landi en greint var frá því í gær að bólu­setning myndi aftur hefjast meðal ein­stak­linga 70 ára og eldri. Í Finn­landi var einnig tekin á­kvörðun um að bólu­setja aftur hjá ein­stak­lingum yfir 65 ára aldri.

Norð­menn eiga enn eftir að taka á­kvörðun um bólu­efnið en heil­brigðis­yfir­völd þar í landi hafa greint frá því að þau muni komast að niður­stöðu næst­komandi föstu­dag.