Daníel Gunnarsson, rúmlega tvítugur Íslendingur, verður ákærður fyrir að morð og limlestingu á líki í Kern-sýslu í Kaliforníu síðar í þessum mánuði . Þetta staðfestir Joseph A. Kinzel, varahéraðssaksóknari sýslunnar, í samtali við Fréttablaðið.
Þetta var niðurstaða dómara síðastliðinn miðvikudag eftir mat á sönnunargögnum málsins. Í fyrirtöku þann dag, afsalaði Daníel sér rétti til málflutnings og vitnaleiðslna um sönnunargögnin, en slík málsmeðferð er þekkt í bandarískum rétti áður en dómari tekur afstöðu til þess hvort næg sönnunargögn séu til þess að sakborningur verði ákærður.
Handtekinn blóðugur á vettvangi
Daníel var í maí í fyrra handtekinn grunaður um að hafa myrt fyrrverandi bekkjarsystur sína, Katie Pham, og limlest lík hennar. Daníel var handtekinn blóðugur á vettvangi morðsins, í bílskúr við heimili stjúpföður síns.
Daníel, sem er fæddur árið 2000, á íslenskan föður og tékkneska móður. Hann flutti ungur með móður sinni til Kaliforníu-fylkis, nánar tiltekið til borgarinnar Ridgecrest í Kern-sýslu, þar sem morðið á Pham var framið, en íbúafjöldi borgarinnar er tæplega þrjátíu þúsund.
Mál Daníels var nýverið tekið upp að nýju eftir það mat geðlæknis að hann væri reiðubúinn til að svara til saka, en dómari hafði áður úrskurðað að hann skyldi sæta meðferð á viðeigandi stofnun. Lá mál hans í dvala á meðan á þeirri meðferð stóð.
Mun líklega neita sök
Í kjölfar útgáfu ákæru á hendur Daníel síðar í þessum mánuði verður málið þingfest Að sögn Kinzel mun Daníel þurfa að taka endanlega afstöðu til ákærunnar við það tækifæri. Það er að segja hvort hann játi eða neiti sök í málinu.
Daníel hefur áður neitað sök fyrir dómi og telur Kinzel líklegt að sú afstaða hans verði óbreytt. Þess má geta að greint hefur verið frá því að Daníel hafi verið blóðugur á vettvangi þegar lögregla kom á vettvang morðisns og er hann sagður hafa sagt „ég drap hana“.

Við þingfestinguna mun dómari einnig ákveða hvenær aðalmeðferð málsins hefst, en að sögn Kinzel líða yfirleitt tveir mánðir frá þingfestingu að aðalmeðferð.
Það er réttur bæði Daníels og ákæruvaldsins að málið að verði flutt fyrir kviðdómi og telur Kinzel að svo verði.
Verði Daníel sakfelldur samkvæmt ákæru á hann yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi, en þess má geta að dauðarefsingar eru ekki heimilar í Kaliforníu. Hann dvelur nú í Lerdo-fangelsinu, sem er gæsluvarðhaldsfangelsi í Kern-sýslu