Daníel Gunnars­son neitaði sök við þingfestingu morðmáls á hendur honum í undirrétti í Kern-sýslu í Kaliforníu í gær. Þetta stað­festir Sally Garcia, stað­gengill sak­sóknara í Kern-sýslu í sam­tali við Frétta­blaðið.

Daníel sem er íslenskur í föðurættina, er ákærður fyrir morð og limlestingu á líki. Samkvæmt upplýsingum sem Fréttablaðið aflaði eftir þingfestingu málsins, hefjast réttarhöld í máli hans í ágúst og mun kvið­dómur dæma um sekt eða sýknu hans.

Daníel var hand­tekinn í maí í fyrra grunaður um að hafa myrt fyrr­verandi bekkjar­systur sína, Kati­e Pham, og lim­lest lík hennar. Daníel var hand­­tekinn blóðugur á vett­vangi morðsins, í bíl­­skúr við heimili stjúp­­föður síns.

Daníel, sem er fæddur árið 2000, á ís­­lenskan föður og tékk­neska móður. Hann flutti ungur með móður sinni til Kali­­forníu-fylkis, nánar til­­­tekið til borgarinnar Rid­gecrest í Kern-sýslu, þar sem morðið á Pham var framið, en í­búa­fjöldi borgarinnar er tæp­­lega þrjá­tíu þúsund.

Mál Daníels var ný­verið tekið upp að nýju eftir það mat geð­læknis að hann væri reiðu­búinn til að svara til saka, en dómari hafði áður úr­skurðað að hann skyldi sæta með­ferð á við­eig­andi stofnun. Lá mál hans í dvala á meðan á þeirri með­ferð stóð, en í mars á þessu ári mat dómari það svo að hann væri orðinn hæfur til að svara til saka.

Kviðdómur með örlög Daníels í höndunum

Samkvæmt fyrstu lögregluskýrslum rannsóknar málsins, játaði Daníel við lögreglu að hafa drepið Pham strax eftir morðið. Hann var handtekinn blóðugur á vettvangi og er haft eftir lögreglu að hann hafi þá sagt: „Ég drap hana“.

Ekki liggur fyrir hvort Daníel hafi dregið þessa yfirlýsingu til baka og hyggist byggja vörn sína á því að hann hafi ekki framið verknaðinn, en hægt er að neita sök á öðrum forsendum, þar á meðal ósakhæfi.

Að sögn Garcia, hafa tvær fyrirtökur í málinu verið dagsettar áður en réttarhöldin hefjast í lok ágúst. Þær varða meðal annars gagnaöflun varnar og sóknar. Ekki liggur fyrir hvenær val í kviðdóminn hefst.

Ekki laus gegn tryggingu

Daníel hefur síðustu mánuði dvalið í Ler­do-fangelsinu, sem er gæslu­varð­halds­fangelsi í Kern-sýslu. Hann verður á­fram í gæslu­varð­haldi fram yfir réttar­höldin og samkvæmt ákvörðun dómara verður hann ekki leystur úr haldi gegn tryggingu.

Verði Daníel sak­felldur sam­kvæmt á­kæru á hann yfir höfði sér allt að lífs­tíðar­fangelsi. Dauðarefsing kemur ekki til greina í Kaliforníu og er lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn þyngsta refsing sem völ er á í fylkinu.