Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO býst við því að dauðsföll af völdum COVID-19 muni aukast í Evrópu næstu tvo mánuði en Hans Kluge, yfirmaður WHO í Evrópu greinir frá þessu í samtali við AFP í dag. Aukning hefur verið í fjölda smita í Evrópu upp á síðkastið en dánartíðni hefur verið tiltölulega stöðug upp að þessu.

„Þetta verður erfiðara ... Þetta er augnablik þar sem löndin vilja ekki heyra þessar slæmu fréttir, og ég skil það,“ sagði Kluge en hann lagði áherslu á að senda jákvæði skilaboð til Evrópulandanna um að faraldurinn tæki að lokum enda á einhverjum tímapunkti.

Hann varaði þó við því að fólk bindi vonir sínar við það að faraldrinum ljúki með tilkomu bóluefnis. „Endalok faraldursins verða þegar við sem samfélag lærum hvernig við eigum að lifa með faraldrinum. Það veltur allt á okkur og það eru mjög jákvæð skilaboð,“ sagði Kluge.

Að því er kemur fram í frétt Guardian munu Evrópulöndin funda stafrænt um stöðuna síðar í dag til að ræða viðbrögð við veirunni og samþykkja viðbragðsáætlun næstu fimm ára.

Metfjöldi nýrra smita

Fjöldi nýrra tilfella heldur áfram að aukast í víðs vegar um heiminn en að því er kemur fram í frétt BBC var met slegið í fjölda nýrra smita á heimsvísu í gær þar sem tæplega 308 þúsund ný tilfelli smits voru skráð. Tæplega 185 þúsund þeirra tilfella komu frá Bandaríkjunum, Indlandi, og Brasilíu en þau lönd eru með flest skráð tilfelli í heiminum, alls rúmlega 15 milljónir.

Af Evrópulöndunum er mesta aukningin í tilfellum hjá Spáni og Frakklandi þar sem rúmlega milljón tilfelli hafa verið skráð. Eins og staðan er í dag hafa rúmlega 29 milljón manns smitast af kórónaveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdóminum og hafa rúmlega 924 þúsund manns látist eftir að hafa veikst.