Í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag greindi Guð­ný Bjarna­dóttir frá kyn­ferðis­of­beldi sem hún varð fyrir sem barn af hálfu Kristins E. Andrés­sonar þing­manns og á­hrifa­manns í stjórn­málum og menningar­lífi.

Til­efni greinarinnar er ný­út­komin bók um Kristinn og eigin­konu hans Þóru Vig­fús­dóttur, „Kristinn og Þóra: Rauðir þræðir“ eftir Rósu Magnús­dóttur, prófessor í sagn­fræði við Há­skóla Ís­lands.

Kristinn E. Andrés­son.
Mynd/Alþingi

Í stöðu­­upp­­­færslu á Face­­book-síðu sinni segir Rósa að hún dáist að Guð­nýju fyrir að stíga fram með þessum hætti.

„Ég dáist að hug­rekki Guð­nýjar Bjarna­dóttur og hugur minn er hjá henni í dag. Guð­ný hafði fyrst sam­band við mig árið 2011 og sagði mér í stuttu máli frá fyrsta at­vikinu sem hún nefnir í greininni. Þá var móðir hennar á lífi og ég bundin trúnaði um málið“, segir Rósa en í grein Guð­nýjar í dag kom fram að hún hefði aldrei greint móður sinni frá brotum Kristins.

Þær Rósa og Guð­ný hittust í fyrsta sinn í haust, um það leyti sem bókin fór í prent, þar sem á­hersla er lögð á lífs­skoðanir þeirra hjóna, hollustu við hug­mynda­fræði kommún­isma og Sovét­ríkin, auk tengsla þeirra við út­gáfu­starf­semi og pólitísku upp­lýsinga- og á­róðurs­starfi.

„Kristinn og Þóra: Rauðir þræðir er ekki helgi­saga; frá­sögn Guð­nýjar árið 2011 hafði mikil á­hrif á mig og rann­sóknina. Ég las allar heimildir með hana í huga. Guð­ný vildi ekki að frá­sögnin kæmi fram þegar við töluðum saman fyrst, en þegar við ræddum saman í haust var hún reiðu­búin að stíga fram. Ég hvatti hana til að segja sína sögu sjálf og nú hefur hún gert það með á­hrifa­miklum hætti. Ég vona að saga hennar verði til þess að ein­staklingar af hennar kyn­slóð finni styrk til að stíga fram og skila skömminni.“