„Ég segi oft að þetta hafi verið dagurinn þar sem ég full­orðnaðist og áttaði mig á al­vöru lífsins,“ segir Heiðar Aust­mann, sem skipu­lagði í dag minningar­at­höfn nú þegar tuttugu ár eru liðin frá einu mann­skæðasta flug­slysi Ís­lands.

Slysið at­vikaðist þannig að lítil flug­vél, með fimm far­þega innan­borðs auk flug­manns, skall í sjóinn í grennd við Reykja­víkur­flug­völl en vélin var að flytja gesti Þjóð­há­tíðar í Eyjum til síns heima.

Flug­maðurinn og tveir far­þegar létust sam­stundis eða skömmu eftir slysið en hinir þrír far­þegarnir létust síðar af sárum sínum. Hin látnu hétu Mohamed Jósef Dag­hlas, sem flaug vélinni, Jón Börkur Jóns­son, Gunnar Viðar Árna­son, Karl Frí­mann Ólafs­son, Heiða Björk Viðars­dóttir og Sturla Þór Frið­riks­son.

Ljós­myndari Frétta­blaðsins tók myndir frá minningar­at­höfninni í Skerja­firði í dag. Þar komu að­stand­endur og vinir hinna látnu saman. Heiðar Aust­mann, einn skipu­leggjanda, missti sin besta vin, Gunnar Viðar, í slysinu.

Vinirnir höfðu verið að skemmta sér á Þjóð­há­tíð og áttu pantað í sama flug heim. Gunnar Viðar var hins vegar of seinn upp á flug­völl og svo fór að Heiðar fór án vinar síns. „Ég flaug í þessari sömu flug­vél og Mohamed flaug henni einnig,“ segir Heiðar.

Í ferðinni sem hann fór í var lent á flug­vellinum á Sel­fossi en næsta ferð vélarinnar átti að enda í Reykja­vík. „Ég er síðan á leið í bíl í bæinn þegar pabbi hringir í mig í of­boði. Hann er of­boðs­lega feginn að ég svara og segir mér frá slysinu sem fréttir voru farnar að berast af. Þá fann ég bara strax innra með mér að vinur minn var farinn.“

Að sögn Heiðars hafi lífið fram að því verið á­hyggju­laus skemmtun en allt hafi breyst eftir þennan ör­laga­ríka dag.

Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli